Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn um að skipta upp rekstrareiningum Orkuveitu Reykjavíkur var felld á fundi borgarstjórnar um sexleytið í dag. Sjálfstæðismenn segja að uppskipting myndi leiða til gagnsærra og ábyrgara eignarhalds auk þess að kostnaður borgarbúa yrði minni. 13 greiddu atkvæði gegn tillögunni en tíu með henni.
Í tillögunni, sem fjallað var um í Morgunblaðinu í dag, var gert ráð fyrir að stoðstarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur yrði færð inn í viðeigandi dótturfélag. Veitur, Orka náttúrunnar (ON) og Gagnaveita Reykjavíkur yrðu um leið sjálfstæðar einingar með auknu gagnsæi og skýrari ábyrgð þar sem samkeppnis- og einokunarrekstur yrði aðskilinn.
„Þarna var tækifæri til að nútímavæða Orkuveitu Reykjavíkur og ná fram meiri hagræðingu og meira gagnsæi. Undir hatti OR er sérleyfisþjónusta Veitna og síðan samkeppnisrekstur í rafmagni og fjarskiptum og þetta á einfaldlega ekki heima saman undir sama hatti. Þá vigta hagkvæmnisrökin lítið þegar heita vatnið er mun ódýrara á Seltjarnarnesi og í Mosfellsbæ en í Reykjavík,“ sagði Eyþór Arnalds, flutningsmaður tillögunar, í samtali við mbl.is skömmu eftir að hún var felld.
Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram sagði að það vekti athygli að verðið á heitu vatni væri umtalsvert hærra í Reykjavík en í nágrannasveitarfélögum, sérstaklega í ljósi þess að Mosfellingar og Reykvíkingar fá vatnið úr sömu borholunni.
„Núverandi kerfi hefur verið gagnrýnt af aðilum á raforkumarkaði, sem og innri endurskoðun sem bent hefur á galla við skipan stjórna rekstrareininganna. Þessi breyting myndi minnka hættuna á hagsmunaárekstrum þar sem saman fara samkeppnis- og einokunarrekstur undir sama hatti,“ sagði jafnframt í bókun sjálfstæðismanna.