Borgarbúar greiði hærra verð fyrir sama vatn

Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn. Mynd úr safni.
Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn. Mynd úr safni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tillaga fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn um að skipta upp rekstrareiningum Orkuveitu Reykjavíkur var felld á fundi borgarstjórnar um sexleytið í dag. Sjálfstæðismenn segja að uppskipting myndi leiða til gagnsærra og ábyrgara eignarhalds auk þess að kostnaður borgarbúa yrði minni. 13 greiddu atkvæði gegn tillögunni en tíu með henni. 

Í tillögunni, sem fjallað var um í Morgunblaðinu í dag, var gert ráð fyrir að stoðstarfsemi Orkuveitu Reykjavíkur yrði færð inn í viðeigandi dótturfélag. Veitur, Orka náttúrunnar (ON) og Gagnaveita Reykjavíkur yrðu um leið sjálfstæðar einingar með auknu gagnsæi og skýrari ábyrgð þar sem samkeppnis- og einokunarrekstur yrði aðskilinn.

Sama borhola en verðið mismunandi

„Þarna var tækifæri til að nútímavæða Orkuveitu Reykjavíkur og ná fram meiri hagræðingu og meira gagnsæi. Undir hatti OR er sérleyfisþjónusta Veitna og síðan samkeppnisrekstur í rafmagni og fjarskiptum og þetta á einfaldlega ekki heima saman undir sama hatti. Þá vigta hagkvæmnisrökin lítið þegar heita vatnið er mun ódýrara á Seltjarnarnesi og í Mosfellsbæ en í Reykjavík,“ sagði Eyþór Arnalds, flutningsmaður tillögunar, í samtali við mbl.is skömmu eftir að hún var felld.

Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokksins sem lögð var fram sagði að það vekti athygli að verðið á heitu vatni væri umtalsvert hærra í Reykjavík en í nágrannasveitarfélögum, sérstaklega í ljósi þess að Mosfellingar og Reykvíkingar fá vatnið úr sömu borholunni.

„Núverandi kerfi hefur verið gagnrýnt af aðilum á raforkumarkaði, sem og innri endurskoðun sem bent hefur á galla við skipan stjórna rekstrareininganna. Þessi breyting myndi minnka hættuna á hagsmunaárekstrum þar sem saman fara samkeppnis- og einokunarrekstur undir sama hatti,“ sagði jafnframt í bókun sjálfstæðismanna.

Fundur borgarstjórnar í beinni útsendingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert