Farið verður fram á gæsluvarðhald yfir þremur mönnum sem handteknir voru á Suðurlandi í gær í tengslum við rannsókn lögreglu á manndrápinu í Rauðagerði. Þetta staðfestir Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.
Um er að ræða einn Íslending og tvo erlenda menn sem voru staddir í sumarhúsi þegar þeir voru handteknir í umfangsmikilli aðgerð lögreglu.
„Það er ekki búið en það verður gerð krafa um gæsluvarðhald. Það er út af rannsóknarhagsmunum,“ segir Margeir um framhald rannsóknarinnar á manndrápinu í Rauðgerði. Hann sagðist ekki ætla tjá sig frekar um málið.
Einn er nú þegar í gæsluvarðhaldi vegna málsins en sá var handtekinn á sunnudaginn, 14. febrúar, og verður í gæsluvarðhaldi til 19. febrúar.
Vísir greindi fyrst frá því að farið yrði fram á gæsluvarðhald yfir þremenningunum en þar kemur fram að Íslendingurinn sé rúmlega fertugur karlmaður, sem hefur verið lýst sem langstærsta fíkniefnabaróni á Íslandi.