Það liggur auðvitað algerlega fyrir að íslenskum ríkisborgurum verður aldrei vísað frá landinu. Þetta kom fram í máli Svandísar Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra í umræðu um Covid-19 á Alþingi.
Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði mikilvægt að reglur á landamærum væru strangar en eins og greint var frá fyrr í dag þurfa allir sem hingað koma að framvísa neikvæðu kórónuveiruprófi, auk tveggja skimana við komuna til landsins. Breytingin tekur gildi á föstudag.
Helga Vala sagðist þó aðeins hugsi vegna neikvæða prófsins fyrir brottför, svokallaðs PCR-prófs, sem mun gilda fyrir alla, líka Íslendinga.
„Þá langar mig aðeins að velta upp þeirri spurningu til hæstvirts ráðherra hvernig þetta muni samræmast 2. mgr. 66. gr. stjórnarskrárinnar þar sem segir að íslenskum ríkisborgara verði ekki meinað að koma til landsins né verði honum vísað úr landi. Ef íslenskur ríkisborgari er ekki með þetta próf, hvernig ætlum við að haga málum á landamærum?“ spurði Helga Vala.
Svandís svaraði því til, eins og áður kemur fram, að Íslendingum verði ekki vísað frá landi.
„Þá vil ég spyrja í framhaldinu, fyrst íslenskum ríkisborgara verður ekki vísað frá landinu, sem er gott af því að það samræmist ekki stjórnarskrá, hvernig framkvæmdin verður ef íslenskur ríkisborgari mætir hingað og er ekki með PCR-próf, hvernig farið verður með þann einstakling á landamærum?“ spurði Helga Vala.
Ráðherra svaraði því til að þetta mál yrði í skoðun þar til reglugerðin hefur tekið gildi. „Ég get ekki svarað því nákvæmlega núna hvernig það verður gert en það er sektarheimild í lögunum sem er hugsanlegt að yrði beitt. En það liggur ekki endanlega fyrir, svo því sé svarað hér algjörlega hreint út,“ sagði Svandís.