Íslenskur karlmaður á fertugsaldri hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna í tengslum við rannsókn á manndrápinu í Rauðagerði sl. laugardag. Maðurinn lýsir sig saklausan af aðild að málinu og hefur kært úrskurðinn til Landsréttar. Þetta staðfestir verjandi mannsins í samtali við mbl.is.
Maðurinn er einn af þremur sem handteknir voru í sumarhúsi á Suðurlandi í gær. Búið er að fara fram á gæsluvarðhald yfir hinum mönnunum en úrskurður héraðsdóms liggur ekki fyrir.
Einn maður af erlendum uppruna hefur setið í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknarinnar síðan á sunnudaginn. Hann verður í gæsluvarðhaldi til 19. febrúar.