Vályndustu veður Íslandssögunnar hafa sum hver hlotið sérstök nöfn sem lifað hafa og orðið nafntoguð. Mætti þar nefna Halaveðrið árið 1925, Flóaveðrið 1990 auk þess sem Hvergerðingar minnast margir „Gróðurhúsalægðarinnar“ sem þar var kölluð, fárviðris sem gekk yfir landið 3. febrúar 1991 og olli tjóni sem nam rúmum milljarði króna að þávirði.
Eru þá ónefndar fleiri veðurtengdar hamfarir og jafnvel heilu tímabilin, svo sem Fönixveðrið, Ólafarbylur, Básendaflóðið, lurkur, píningur og frostaveturinn mikli.
Í dag og á morgun eru 40 ár liðin frá öðru fárviðri sem skall á að kvöldi 16. febrúar 1981 og hefur æ síðan verið þekkt undir heitinu „Engihjallaveðrið“, en lesendum, sem komnir eru af því léttasta, eru vafalítið í fersku minni fréttamyndskeið ríkissjónvarpsins af fólksbílum sem rúlluðu eins og gosdósir um bílastæði við fjölbýlishús í Engihjalla í Kópavogi.
Anna Helgadóttir starfar í dag við leiðtogaþjálfun hjá Marel og býr í Hollandi. Í febrúar 1981 var hún hins vegar níu ára gamall íbúi á 6. hæð í Engihjalla 3 og upplifði þar skelfingarstundir lífs síns eftir að hún komst við illan leik heim úr Snælandsskóla.
„Ég kalla þetta bara forgarð helvítis,“ segir Anna í samtali við mbl.is og fer ekki í neinar grafgötur með skelfinguna sem hún upplifði mánudagskvöldið 16. febrúar 1981. „Þetta var þannig að ég bjó hjá foreldrum mínum í Engihjalla, pabbi og mamma byggðu þar þannig að við vorum í raun frumbyggjar,“ segir Anna frá, sem á þessum tíma gekk í Snælandsskóla.
„Mamma var að vinna á leikskólanum rétt hjá Snælandsskóla sem var ástæðan fyrir því að ég fór þangað, ég hefði eiginlega átt að fara í Digranesskóla. Ég var yfirleitt samferða mömmu þegar hún fór í vinnuna á morgnana og svo labbaði ég heim,“ segir Anna og kveður göngutúrinn heim úr skólanum hafa verið um tvo kílómetra.
Þegar 16. febrúar rann upp segist Anna hafa setið við útvarpið og vonast ákaft eftir að heyra þar tilkynningu um að skólahald félli niður í Snælandsskóla. Veður hafi þó ekki verið orðin válynd þá um morguninn, enda skall fárviðrið ekki á fyrr en að kvöldi dags, bara hefðbundið „leiðinlegt veður“ eins og hún lýsir því. „Ég man ekkert af hverju ég var svona mikið að vona að skólinn félli niður, en þessi minning situr alveg skýrt í mér,“ rifjar Anna upp.
„Engihjallinn er náttúrulega rokrassgat, þú þarft ekkert að búa þar lengur en viku til að átta þig á því. En alla vega, ég fer í skólann og svo er farið að bæta býsna mikið í vind þegar ég fer heim. Þetta hefur líklega verið um tvö- eða þrjúleytið og ég man að það var glerhálka líka.
Ég reyndi að vera útsjónarsöm og hlaupa á milli grindverka og bíla, en ég þurfti að hafa eitthvað til að halda mér í. Ég skreið meira að segja hluta af leiðinni vegna hálku. Ég var náttúrulega bara níu ára og ég sá fullorðna konu á leiðinni sem var bara hreinlega að fjúka,“ segir Anna af heimförinni úr skólanum sem skaut henni verulega skelk í bringu þetta febrúarsíðdegi fyrir 40 árum.
Ekki tók betra við þegar stúlkan unga komst felmtri slegin inn í anddyrið í Engihjalla 3 og taldi sig heimta úr helju...í bili. Þar þurfti að opna með lykli inn á stigaganginn úr anddyrinu sem reyndist þrautin þyngri. „Ég var svo loppin á fingrunum að ég gat ekki haldið um lykilinn og mér var svo ískalt í framan að ég gat ekki talað heldur. Þarna var eitthvert fólk sem var að tala eitthvað við mig og ég kom ekki orði út úr mér.“
Anna komst þó til allra heilla inn að lokum og heim á sjöttu hæðina. Næstu minningar hennar segir hún svo vera frá kvöldinu þegar þetta eftirminnilega fárviðri var skollið á landinu af fullum þunga. „Þá var veðrið orðið mjög slæmt og ég man hvernig maður sá rúðurnar í stóru gluggunum dúa fram og til baka.
Ég var svo lítil á þessum tíma og þá eru pabbi og mamma bara ofurhetjur. Það er ekkert til sem þau geta ekki lagað, en þetta kvöld var greinilegt að enginn réð við aðstæðurnar. Og maður fann það alveg líka mjög skýrt að fólkinu á hæðinni – og bara fólkinu í húsinu – stóð ekki á sama,“ segir Anna af nágrönnum fjölskyldunnar.
Sérstaklega óhugnanlegt hafi henni fundist að líta út um gluggann og sjá aðrar og hærri íbúðarblokkir í nágrenninu hreinlega sveiflast til undan veðurhamnum.
„Og svo voru það bílarnir,“ segir Anna og þagnar um stund. „Það var alveg lygilegt. Ég var náttúrulega uppi á sjöttu hæð og þaðan litu þeir út eins og leikfangabílar og það var hreinlega eins og einhver væri bara að hrista þá til, þeir dönsuðu um á planinu. Eins var búið að strengja reipi á milli ljósastaura svo fólk gæti komist á milli bygginga og fólk hékk bara í þeim í láréttri stöðu,“ lýsir hún.
Kvöldið hafi svo liðið í hálfgerðri skelfingu íbúa í Engihjalla 3. „Við vorum föst í húsinu, það var ekki eins og við gætum farið út í bíl og keyrt í burtu, bílar voru eins og hráviði út um allt eftir að hafa fokið úr stað. Það var svakalegt að horfa upp á þetta, sérstaklega þegar maður sá stóru blokkirnar hreyfast til.
Ég man að ég hugsaði með mér í fullri alvöru hvort blokkirnar væru að fara að hrynja. Þetta var alveg ofboðsleg hræðsla sem ég upplifði og lætin voru rosaleg. Annað sem ég man vel eftir voru þakplöturnar þegar þær fóru að fjúka. Þetta var bara eins og fljúgandi rakvélablöð og maður var svo hræddur um að þetta kæmi inn um gluggann. Ég man að á tímabili sat ég bara á ganginum, hélt fyrir eyrun og bað til guðs að þessu færi að ljúka,“ segir Anna frá og getur með engu móti rifjað upp hvernig mál þróuðust síðar um kvöldið.
„Ég man ekki meir, ég man ekkert hvenær ég fór að sofa, hvar ég fór að sofa eða neitt. En þetta kvöld áttaði ég mig á því að ofurhetjur eru bara til í þykjustunni og manneskjur geta ekki stjórnað ofsaveðri. Ekki einu sinni mamma og pabbi,“ segir Anna Helgadóttir af sinni upplifun við Engihjalla mánudagskvöldið 16. febrúar 1981.
Ítarlega upprifjun á Engihjallaveðrinu 1981 má lesa í vefútgáfu Morgunblaðsins og í blaðinu í dag