Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur (HER) hefur borist töluvert af kvörtunum frá íbúum í nágrenni Sundahafnar undanfarna mánuði vegna hávaða sem þaðan hefur borist á kvöldin og um nætur.
Í bréfi sem eftirlitið sendi Faxaflóahöfnum, Eimskipum og Samskipum kom fram að ljósavélar og frystigámar á skipum gætu mögulega valdið ónæðinu. Það tiltók sérstaklega Lagarfoss, sem bilaði í desember og lá í Sundahöfn vegna viðgerðar. Ljósavélar skipsins væru háværari en gengur og gerist. Líklega hafi kvörtunum fjölgað mikið vegna þess.
Flutningaskipið hélt af stað í prufusiglingu í gær að lokinni viðgerð.
Eimskip brást við með því að koma upp raftengingu úr landi en nýlega kom í ljós að ljósavélar þurfa að vera í gangi þegar nota þarf krana og lýsingu á dekki á skipinu, að því er segir í færslu formanns íbúaráðs Laugardals á facebooksíðu Laugarneshverfis. Fram kemur að Eimskip hafi viðurkennt ónæðið.
Heilbrigðiseftirlitið hefur hljóðmælt við hús í Sæviðarsundi og Efstasundi til að leggja mat á hávaða og hvort greina megi uppruna hans. Niðurstöður eru væntanlegar úr þeirri rannsókn.
Heilbrigðiseftirlitið hefur einnig áhyggjur af því að framkvæmdir sem eru fyrirhugaðar í Sundahöfn breyti hljóðvist og hvernig hljóð berast frá svæðinu. Þessu hefur verið komið á framfæri í umsögn með tillögu að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum um uppfyllingar á Sundahafnarsvæðinu.
Heilbrigðiseftirlitið mun funda með Faxaflóahöfnum, Eimskipum og Samskipum til að fara yfir öll þessi mál, að því er kemur fram í færslunni.