Loka þurfti sölukerfi Hlíðarfjalls í gær vegna álags í netsölu. Unnið er að því að skoða öll miðakaup en margir héldu að þeir væru búnir að kaupa miða en fengu síðan endurgreitt. Opnað verður fyrir miðasölu fyrir vetrarleyfistímabilið síðar í dag.
Á facebooksíðu Hlíðarfjalls kemur fram að ef miðakaup hafa ekki tekist en greiðsla verið staðfest þá hafi fólk samband á hlidarfjall@hlidarfjall.is. Sölukerfið á sjálfkrafa að endurgreiða ef miðakaup hafa ekki verið staðfest, mikilvægt að þeir aðilar skoði færslur með tilliti til hvort endurgreiðsla hafi tekist.
Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður skíðasvæðisins í Hlíðarfjalli, segir að unnið sé að því að koma kerfinu í lag aftur. Svo virðist sem margar færslur hafi verið endurgreiddar og nú sé skoðað hvernig hægt verður að koma til móts við fólk sem taldi sig vera með miða en var ekki komið með miða. Hann segir að eitthvað hafi verið um tvíbókanir en þetta sé eitthvað sem sé í athugun. Þess vegna þurfi að fara yfir hvað fór í gegn og hvað ekki.
Álagið hafi komið mjög á óvart enda forrit sem notað af mörgum stórum skíðasvæðum erlendis. Tæknimenn eru að vinna í kerfinu og vonandi verður hægt að hefja sölu fyrr en síðar án þess að hægt sé að nefna ákveðinn tíma segir Brynjar.
Að sögn Brynjars er beðið eftir svari frá embætti landlæknis hvort skíðasvæðin megi auka við þann fjölda sem má vera á skíðasvæði á sama tíma. Nú er miðað við 25% af afkastagetu en óskað hefur verið eftir því að fara upp í 50%. Ef svo fer þá verða engin vandræði með að svara eftirspurn.
Skíðasvæðum verður heimilt að hafa opið með takmörkunum samkvæmt leið 4 í útgefnum reglum skíðasvæðanna í landinu. Leyfilegur hámarksfjöldi á hverjum tíma er 25% af reiknaðri móttökugetu hvers svæðis.
Aukið eftirlit verður með fjölda á hverju svæði og ef útlit er fyrir að fjöldi sé kominn að hámarki þá verða upplýsingar umsvifalaust birtar á upplýsingamiðlum skíðasvæðanna og aðgangi að svæðinu lokað tímabundið. Hvert svæði birtir á vefsvæði upplýsingar um hámarksmóttöku og reiknað hlutfall gesta sem er leyfilegt á hverjum tíma. Börn fædd 2005 og síðar eru ekki talin með.