Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að breyting á aðgerðum við landamærin sé „varfærin leið“. Fyrri aðgerðir hafi skilað afar góðum árangri en 98% þeirra sem til landsins hafa komið síðan reglur um tvöfalda skimun á landamærum tóku gildi hafa skilað sér í seinni skimun. Með nýjum aðgerðum er að mati Katrínar „mögulegur leki þéttur“ á landamærunum.
Katrín telur mikilvægt að varfærin skref séu tekin í tilslökunum á aðgerðum vegna Covid-19 innanlands. Þó megi Íslendingar vera bjartsýnir á að ráðist verði í tilslakanir bráðlega, í ljósi þess að fá kórónuveirusmit virðast vera í samfélaginu.
Í dag samþykkti Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um aðgerðir á landamærunum. Þær felast m.a. í því að fólk þarf að framvísa neikvæðu PCR-prófi við komuna til landsins, auk þess að fara í tvöfalda skimun með fimm daga sóttkví á milli.
„Við erum auðvitað að fara hina varfærnu leið,“ sagði Katrín um það. Kerfið sem nú er í gildi á landamærum, tvöföld skimun með fimm daga sóttkví á milli, er að hennar mati bæði gott og skilvirkt.
„En [við] bætum þessari auka kröfu við til þess að þétta mögulegan leka því við erum líka að sjá mjög góðar heimtur úr núverandi kerfi þar sem 98% eru að skila sér í seinni skimun svo dæmi sé tekið,“ segir Katrín.
„Ég hef svo sem ekki neinn alþjóðlegan samanburð en ég held að þetta ætti að vera mjög góður árangur.“
Spurð hvort tímabært sé að skoða tilslakanir á aðgerðum innanlands segir Katrín:
„Mér finnst auðvitað mikilvægt að við tökum varfærin skref. Nýlega gengu í gildi ákveðnar tilslakanir þannig að nú er engin starfsemi lokuð lengur í landinu. Ég held að það sé mikilvægt að við séum áfram varfærin en staðan núna gefur auðvitað tilefni til bjartsýni um að við getum ráðist í tilslakanir innanlands.“