„Við erum alls með 35 staði sem vaktaðir eru í hlíðinni til þess að fylgjast með hvort einhver hreyfing komi fram,“ segir Tómas Jóhannesson, sérfræðingur á ofanflóðavakt Veðurstofu Íslands. Um 100 íbúar í 46 húsum á Seyðisfirði rýmdu hús sín undir kvöld vegna skriðuhættu.
Húsin eru rýmd vegna þess að mikilli rigningu er spáð og óvissa er um stöðugleika hlíðanna í Botnabrún eftir skriðuföllin í desember.
Tómas segir stöðuna óbreytta. Byrjað er að rigna en engin ummerki eru um hreyfingu í mælabúnaðinum í hlíðinni.
Tómas segir að rýmt sé í öryggisskyni þar til meiri reynsla fáist á stöðugleika hlíðarinnar.
„Ef engin hreyfing mælist núna þá verðum við róleg með ámóta rigningu og leysingu héðan í frá.“
Rýming verður endurmetin á morgun en þá á að draga úr rigningu og kólna.