Embætti héraðssaksóknara hefur gefið út framhaldsákæru í sakamáli gegn bræðrunum Ágústi Arnari Ágústssyni og Einari Ágústssyni og félaginu Zuism trúfélagi sem þeir voru í forsvari fyrir. Kemur framhaldsákæran í kjölfar þess að 16.100 bandaríkjadalir fundust á reikningum sem skráðir voru á Einar hjá bresku verðbréfafyrirtæki.
Fékk embættið upplýsingar um fjármunina frá fulltrúa bandaríska dómsmálaráðuneytisins, en þar kom fram að þótt reikningarnir sem um ræddi væru skráðir hjá verðbréfafélaginu Interactive Brokers í Bretlandi hafi eignir á þeim endanlega verið varslaðar hjá móðurfélaginu í Bandaríkjunum.
Í framhaldsákærunni, sem fyrst var greint frá á Vísi, er farið fram á upptöku þessara fjármuna, sem nema rúmlega tveimur milljónum íslenskra króna. Hafa bandarísk yfirvöld kyrrsett eignir á báðum reikningunum.
Í málinu eru bræðurnir sagðir hafa styrkt og hagnýtt sér þá röngu hugmynd starfsmanna íslenskra stjórnvalda að trúfélagið Zuism uppfyllti skilyrði fyrir skráningu trúfélags samkvæmt lögum nr. 108/1999 um skráð trúfélög og lífsskoðunarfélög. Með þessu hafi þeir fengið greiddar 84,7 milljónir úr ríkissjóði í formi sóknargjalda, í samtals 36 skipti, á árunum 2017 til 2019. „Með þessu ollu ákærðu íslenska ríkinu verulegri fjártjónshættu og fjártjóni í reynd,“ segir í upphaflegri ákæru málsins.
Þá eru þeir sagðir hafa beitt blekkingum með að vísa til þess að innan félagsins væri lögð stund á átrúnað og stöðug starfsemi færi þar fram. Í raun hafi hins vegar engin starfsemi verið innan félagsins sem uppfyllti lagaskilyrði fyrir trúfélagi og að fjármununum hafi verið ráðstafað með öðrum og óskyldum hætti, meðal annars í þágu bræðranna.
Var meðal annars stór hluti fjármunanna millifærður á erlenda bankareikninga félaga í eigu bræðranna eða notaður í fjárfestingar hér heima og erlendis.