Fjórir handteknir til viðbótar

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur handtekið fjóra til viðbótar í þágu rannsóknar hennar á manndrápi í Rauðagerði í Reykjavík um liðna helgi.

Fjórmenningarnir voru handteknir í aðgerðum lögreglu á höfuðborgarsvæðinu í gær, en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort krafist verður gæsluvarðhalds yfir þeim, að því er lögreglan greinir frá.

Hún segir ennfremur að ekki sé hægt að veita frekari upplýsingar um málið að svo stöddu. 

Alls hafa átta verið handteknir í tengslum við málið og þegar hafa fjórir verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald eins og greint hefur verið frá. 

Einn er að hugsa málið 

Tveir þeirra þriggja sem úrskurðaðir voru í gæsluvarðhald í gær í tengslum við manndrápsmálið í Rauðagerði hafa kært ákvörðun um úrskurð um gæsluvarðhald til Landsréttar. Þetta staðfestir Margeir Sveinsson í aðstoðaryfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is. Sá þriðji „er að hugsa málið.“ Fjórði maðurinn er í gæsluvarðhaldi fram á föstudag. 

Að öðru leyti vildi hann ekki gefa neitt upp um málið. Sagði þó að rannsókn héldi áfram og að umfangsmiklar yfirheyrslur hafi farið fram.

Spurður hvort lögregla hyggist handtaka fleiri en þá vildi hann ekki tjá sig um það. Skömmu eftir samtalið við mbl.is kom svo tilkynning um að fjórir hefðu verði handteknir til viðbótar við þá fjóra sem eru í gæsluvarðhaldi.  

Tengjast allir 

Samkvæmt heimildum mbl.is tengjast allir mennirnir fjórir sem voru settir í gæsluvarðhald í gær og á sunnudag. Eru þeir sagðir hafa unnið fyrir Íslending sem er í gæsluvarðhaldi. Er hann sagður hafa verið umsvifamikill á íslenskum fíkniefnamarkaði um árabil. Þá herma heimildir mbl.is að erlendu mennirnir hafi allir komið nýlega til landsins og ekki haft hér fasta búsetu. Er Íslendingurinn sagður vera í þröngri stöðu í undirheimunum eftir að hafa verið ásakaður um að veita lögreglu upplýsingar um viðskipti á fíkniefnamarkaði um árabil. Mennirnir hafi verið m.a. verið fengnir hingað til lands til að vera honum til verndar. 

Heimildir mbl.is herma að ein tilgáta lögreglu sé sú að mennirnir eða einn mannanna beri ábyrgð á skotárásinni í Rauðagerði og að a.m.k. einn þeirra hafi komið til landsins gagngert til að framkvæma verknaðinn.

Maðurinn í einangrun 

Ekki liggur fyrir þjóðerni mannanna sem sagðir eru hafa komið nýlega til landsins að undanskildu þjóðerni mannsins sem handtekinn var í Garðabæ skömmu eftir að albanska manninum var ráðinn bani. Er hann frá Litháen. 

Lögmaður Íslendingsins er Steinbergur Finnbogason. Hann segir manninn í einangrun og staðfestir að hann sé í haldi vegna skotárásarinnar. Hann segir manninn hafa neitað allri aðild að málinu. „Málið er á viðkvæmu rannsóknarstigi og hvorki lögmönnum né lögreglumönnum er heimilt að tjá sig um málið á þessu stigi,“ segir Steinbergur.   

Eins og fram hefur komið er óttast að málið tengist skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi.  Karl Steinar Valsson, hjá alþjóðadeild ríkislögreglustjóra ræddi við mbl.is á mánudag og benti á að skipulögð glæpastarfsemi væri búin að festa rætur sínar á Íslandi.

Mest áberandi væru ítök manna frá Póllandi, Litháen, Albaníu og Rúmeníu. Að sögn Karls Steinars hefur Ísland nokkra sérstöðu þegar kemur að skipulagðri glæpastarfsemi. Ólíkt því sem gerist erlendis virðist vera nokkur blöndun milli hópanna sem starfa saman með Íslendingum í skipulagðri starfsemi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert