Íslendingum sem ekki framvísa vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi vegna Covid-19 við komuna til landsins verður ekki meinaður aðgangur inn í landið en þeir geta átt von á sekt hafi þeir ekki niðurstöður meðferðis. Þetta kemur fram í tilkynningu Icelandair til farþega.
„Frá og með 19. febrúar 2021 þurfa allir farþegar sem koma til landsins að framvísa nýlegu vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi fyrir brottför, sem eru ekki meira en 72 klst. gamlar. Einnig verða tekin gild ákveðin vottorð sem sýna fram á að farþegi hafi náð sér af Covid-19. Íslendingum verður ekki meinaður aðgangur inn í landið, en geta átt von á sekt hafi þeir ekki niðurstöður meðferðis. Börn fædd 2005 eða síðar þurfa ekki að sýna fram á neikvæðar niðurstöður sem og tengifarþegar sem fara ekki út af flugvellinum fyrir næsta flug,“ segir í tilkynningunni.
Í gær samþykkti Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra tillögur Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis um aðgerðir á landamærunum. Þær felast m.a. í því að fólk þarf að framvísa neikvæðu PCR-prófi við komuna til landsins, auk þess að fara í tvöfalda skimun með fimm daga sóttkví á milli.
„Athugaðu að ef þú ert ekki í beinu flugi til Íslands, þá gætir þú mjög líklega þurft að sýna fram á að hafa farið í Covid-19-próf fyrir brottför í landinu sem þú tengir í gegnum, þó svo að þú farir ekki út af flugvellinum,“ segir jafnframt í tilkynningu Icelandair.