Fyrirtækið Suðurverk hf. átti lægsta tilboðið í þverun Þorskafjarðar í Reykhólahreppi en tilboð voru opnuð í gær.
Um er að ræða nýbyggingu Vestfjarðarvegar á um 2,7 kílómetra kafla yfir Þorskafjörð. Innifalið í verkinu er bygging 260 metra langrar steyptrar brúar á Þorskafjörð.
Nýi vegurinn frá Kinnarstöðum að Þórisstöðum styttir Vestfjarðaveg um rúma níu kílómetra.
Tilboð Suðurverks hf. úr Kópavogi hljóðaði upp á 2.236.614.223 krónur en tilboð Þróttar ehf. frá Akranesi var skammt undan, eða 2.265.076.550 krónur, að því er segir á vef Vegagerðarinnar.
Hæsta tilboðið kom frá Íslenskum aðalverktökum, eða 2.945.670.171 króna, en fimm verktakar buðu í verkið.
Áætlaður verktakakostnaður er metinn 2.078.354.246 krónur og skal verkinu að fullu lokið 30. júní 2024.