Þrír af þeim fjórum sem handteknir voru í gær í þágu rannsóknar lögreglu á manndrápi í Rauðagerði um liðna helgi voru í kvöld úrskurðaðir í vikulangt gæsluvarðhald að kröfu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.
Áður höfðu fjórir verið úrskurðaðir í gæsluvarðhald vegna málsins. Allir sem eru í haldi lögreglu eru á fertugsaldri fyrir utan einn, sem er á fimmtugsaldri. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.
Einn af þeim átta sem hafa verið handteknir er Íslendingur, en hann er sagður hafa verið umsvifamikill í fíkniefnaheimum á Íslandi um árabil. Hann hefur lýst yfir sakleysi sínu í málinu og kært gæsluvarðhaldsúrskurð til Landsréttar.
Hinir sjö eru erlendir ríkisborgarar, flestir þó með búsetu hér á landi samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni.
Eins og fram hefur komið snýst einn angi rannsóknarinnar að því hvort að málið tengist erlendum glæpasamtökum. Lögreglan hefur notið liðsinnið Europol í formi upplýsingaöflunar. Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn sagði almenning ekki vera í hættu í samtali við mbl.is fyrr í dag.
„Ef lögreglan hefði vitneskju um það að almenningur væri í hættu þá myndum við bregðast við með viðeigandi ráðstöfunum en við teljum svo ekki vera í þessu tilviki,“ sagði Margeir.