Á morgun verður 164. upplýsingafundur almannavarnadeildar og embættis landlæknis vegna Covid-19-faraldursins og verður fjölmiðlafólki boðið að koma í hús til þess að fylgjast með upplýsingafundi og spyrja spurninga. Síðustu rúma fjóra mánuði hefur fjölmiðlafólk tekið þátt í gegnum fjarfundarbúnað.
Frá 12. október á síðasta ári hafa upplýsingafundir almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og embættis landlæknis með þátttöku blaða- og fréttamanna farið fram í gegnum fjarfundarbúnað en sjónvarpað í beinni útsendingu tvisvar í viku, segir í tilkynningu almannavarna.
Sá háttur hefur verið hafður á frá því smitum fór að fjölga í samfélaginu og svokölluð þriðja bylgja faraldursins hófst og almannavarnastig var hækkað í neyðarstig.
Núna, fjórum mánuðum og fimm dögum seinna, er staðan í baráttunni við Covid-19 hér á landi miklu betri. Smit á Íslandi eru í lágmarki og má það þakka samstöðu þjóðarinnar og því verður fjölmiðlafólki boðið að koma í hús.
Eins og alltaf verður að gæta að einstaklingsbundnum sóttvörnum, vera með grímur og gæta að fjarlægðarmörkum.