Maður af erlendum uppruna var í síðustu viku dæmdur í átján mánaða fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir tilraun til nauðgunar inni á skemmtistað í miðbæ Reykjavíkur.
Þar er hann sagður hafa gert tilraun til að eiga samræði við mjög ölvaða stúlku inni á baðherbergi staðarins. Maðurinn starfaði á staðnum og notfærði sér að sögn dómsins ástand stúlkunnar til að reyna að eiga samræði við hana.
Að auki var maðurinn dæmdur til að greiða stúlkunni 1.500.000 krónur í bætur, ásamt því sem honum er gert að greiða allan máls- og sakarkostnað.
Atvikið átti sér stað í maí 2018. Stúlkan var á skemmtistað eftir að hafa verið í útskriftarveislu vinkonu sinnar fyrr um kvöldið og var töluvert ölvuð. Samkvæmt framburði hennar var hún á leið á klósett staðarins þegar hún hitti mann á dansgólfinu. Sá hafi tekið um mjaðmir hennar og reynt að dansa við hana, en hún mundi ekki til þess að þau hefðu rætt um kynlíf eða kysst.
Það næsta sem stúlkan man er að vera í sjúkrabíl og vinkona hennar er með henni.
Á sjúkrahúsinu fundust marblettir á innanverðu hægra læri en ekki óyggjandi ummerki í leggöngum um að samræði hefði átt sér stað. Að sögn lækna á móttöku báru einkennin frekar þess merki að vera af völdum sveppasýkingar.
Ákærði játaði að hafa farið inn á baðherbergi með stúlkunni, eins og myndbönd staðfestu einnig. Hann játaði að kynfæri þeirra hefðu snerst en kvaðst ekki viss um að limur hans hefði farið inn í leggöng konunnar. Síðar sagðist hann telja að hann hafi farið inn til hálfs. Hann sagðist svo hafa hætt vegna þess að stúlkan hefði ekki verið nægilega stöðug til að geta stundað kynlíf.
Í úrskurði segir að ekkert finnist í gögnum málsins sem staðfesti alveg að samræði hafi átt sér stað á milli einstaklinganna tveggja. Þar sem stúlkan er ekki til frásagnar er frásögn hins ákærða lögð til grundvallar, um að samræðið hafi ekki átt sér stað.
Ásetningur til kynferðisbrots var þó til staðar, enda þótti ekki sýnt að maðurinn hefði hætt við verknaðinn af sjálfsdáðum, heldur vegna þess að honum tókst ekki að ná fram vilja sínum. Hér má lesa dóminn.