Héraðsdómur Reykjaness hefur sakfellt tvo karlmenn fyrir meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum og peningaþvætti. Mennirnir voru dæmdir í 15 og 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi og jafnframt gert að greiða samtals 210 milljónir kr. í sekt.
Héraðsdómur segir að mennirnir hafi unnið brotin í sameiningu og beri þau vott um einbeittan brotavilja þeirra. Auk þess varði brotin háar fjárhæðir.
Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll í gær, að héraðssaksóknari hafi í júlí í fyrra ákært þá Hrólf A. Sumarliðason og Viðar Sæbergsson fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um tekjuskatt og lögum um virðisaukaskatt. Fram kemur í ákærunni að Hrólfur hafi verið framkvæmdastjóri og stjórnarmaður einkahlutafélagsins Eldshöfða 23 og Viðar hafi verið bókari félagsins. Þeir voru ákærðir fyrir meiri háttar brot gegn skatta- og bókhaldslögum. Auk þess var Hrólfur ákærður fyrir peningaþvætti.
Í dómnum segir að skattrannsóknarstjóri ríkisins hafi tekið til rannsóknar bókhald og skattskil Eldshöfða, sem áður hét Farmur ehf., vegna rekstraráranna 2010 til og með 2013. Endanleg skýrsla lá fyrir í lok árs 2016. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að staðin hefðu verið skil á efnislega röngum skattframtölum og ársreikningum vegna ofangreindra rekstrarára, efnislega röngum staðgreiðsluskilagreinum, efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum og leiðréttingarskýrslum virðisaukaskatts. Bókhald hafi því verið rangfært og rekstrargjöld oftalin.
Þetta er í takt við það sem kemur fram í ákæru héraðssaksónara, sem segir að þeir Hrólfur og Viðar hafi í sameiningu staðið skil á efnislega röngum skattframtölum félagsins gjaldárin 2012 og 2013, vegna rekstraráranna 2011 og 2012, með því að offramtelja rekstrargjöld félagsins um 93 milljónir króna. Með þessu vanframtöldu mennirnir tekjuskattstofn félagsins um samtals 41 milljón kr. og komu félaginu undan greiðslu tekjuskatts að fjárhæð 7,4 milljónir kr.
Þeir voru einnig ákærðir fyrir að hafa í sameiningu staðið skil á efnislega röngum virðisaukaskattskýrslum og leiðréttingarskýrslum virðisaukaskatts fyrir félagið fyrir uppgjörstímabilin janúar til febrúar rekstrarárið 2010 til og með nóvember til desember rekstrarárið 2013 með því að offramtelja innskatt félagsins um 66 milljónir kr. og þar með vantelja virðisaukaskatt sem standa bar skil á vegna sömu tímabila í samræmi við lög.
Mennirnir hafi í sameiningu rangfært bókhaldið á þann hátt að offæra rekstrargjöld og innskatt félagsins rekstrarárin 2010 til og með 2013.
Þá var Hrólfur ákærður fyrir peningaþvætti með því að hafa aflað sér ávinnings að fjárhæð 38 milljónir kr. með skattalagabrotum, en hann tók samtals rúmar 85 milljónir út úr rekstri Eldshöfða á árunum 2010 til og með 2013 og ráðstafaði fjármunum í eigin þágu og til eiginkonu sinnar.
Í dómi héraðsdóms segir að við rannsókn skattayfirvalda hafi misfellur í bókhaldi félagsins komið Hrólfi á óvart en hann kvaðst alfarið hafa treyst Viðari til að annast bókhaldið og hann hefði einnig annast launaútreikninga og að skila virðisaukaskattsskýrslum. Gat því Hrólfur lítið tjáð sig um bókhald félagsins en hann kvaðst hafa borið ábyrgð á félaginu sem framkvæmdastjóri þess. Viðar kvaðst aðeins hafa séð um bókhaldið sem verktaki en ekki komið að rekstri þess. Hann hefði verið með skoðunaraðgang að reikningum félagsins en ekki getað tekið út af þeim.
„Ákærði Hrólfur hafi afhent ákærða Viðari bókhaldsgögn en hann gat litlu svarað um þau atriði sem voru í ólagi í bókhaldi félagsins m.a. varðandi færslur þar sem ekki voru gögn að baki eða hvers vegna innskattur var oftalinn. Ákærði Viðar gat ekki svarað því hver hafi borið ábyrgð á þessu en hann hafi ekki notið ávinnings af því að bókhaldið var ekki í réttu horfi,“ segir m.a. í dómi héraðsdóms.
Hrólfur hafnaði því að hann hefði sýnt af sér stórfellt gáleysi, hvað þá ásetning, til brota gegn bókhalds- og skattalögum.
Héraðsdómur Reykjaness kemst hins vegar að þeirri niðurstöðu að sakfella beri mennina fyrir stórfelld brot. Hrólfur var dæmdur í 15 mánaða skilorðsbundið fangelsi og Viðar í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi. Þá er hvor um sig dæmdur til að greiða 105.000 milljóna kr. sekt til ríkissjóðs þar sem þeir hafi með háttsemi sinni stuðlað að skattsvikum og þar með að lögboðin gjöld væru ekki greidd.
„Brot ákærðu eru stórfelld og í slíkum tilfellum hefur myndast sú dómvenja að sekt sé því sem næst þrefaldri þeirri skattfjárhæð sem undan var dregin í tengslum við brotin,“ segir í dómnum.