Bráðabirgðatölur ríkislögreglustjóra sýna að glæpir voru í flestum málaflokkum færri árið 2020 en árið 2019. Áfengislagabrotum fækkaði um 52% á milli ára og fíkniefnabrotum um 19,2%, að því er kemur fram hér.
Í undirflokkum fíkniefnabrota fækkaði brotum mest í málum sem fólu í sér flutning fíkniefna, um 24%, og næst þegar kom að vörslu og meðferð fíkniefna, um 21%.
Sveiflur geta verið á haldlögðu magni fíkniefna enda fer magnið eftir því hvort stór mál komi á borð lögreglu. Magnið var þó minna af flestum fíkniefnum, eins og af hassi (78% minna), kókaíni (81% minna) og amfetamíni (50% minna).
Áfengislagabrot voru 311 árið 2020 en voru 540 árið áður. Miðað við meðaltal síðustu þriggja ára voru brotin um 58% færri árið 2020.
Umferðarlagabrotum fækkaði loks umtalsvert á milli ára eða um 26%. Hraðakstursbrot voru 42.190 og þar af voru 32.592 tekin á sjálfvirkar stafrænar hraðamyndavélar.