Atvinnuleysið það mesta á Norðurlöndum

Vinnumálastofnun.
Vinnumálastofnun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Atvinnuleysi hér á landi jókst verulega á árinu 2020 og mun meira en í nágrannalöndunum. Nú er svo komið að atvinnuleysið hér er það mesta á Norðurlöndunum í fyrsta skipti, sé miðað við síðustu áratugi, og væntanlega í fyrsta skiptið í sögunni.

Fram kemur í Hagsjá hagfræðideildar Landsbankans að í gegnum árin hafi atvinnuleysi verið einna minnst á Íslandi meðal Norðurlandanna. Fyrir 1990 hafi Ísland reyndar einkennst af mjög mikilli verðbólgu og litlu atvinnuleysi.

„Sé litið á þróun atvinnuleysis á Norðurlöndunum frá aldamótum má sjá að sveiflurnar á síðustu árum eru mestar hér á landi og miklar breytingar gerast mun hraðar en í hinum löndunum. Það á sérstaklega við um fjármálakreppuna og Covid-faraldurinn sem hófst á síðasta ári. Fram til 2008 var atvinnuleysið að jafnaði minnst hér á landi og í fjármálakreppunni var einungis Noregur með minna atvinnuleysi en við. Staðan í Finnlandi versnaði verulega eftir 1990 og þar var atvinnuleysi að jafnaði yfir 10% fram að aldamótum. Staðan var heldur ekki góð í Svíþjóð á tíunda áratug síðustu aldar, en batnaði mun fyrr en í Finnlandi,“ segir í Hagsjánni.

Mjög frábrugðin þróun á Íslandi

Fram kemur að vorið 2020 hafi atvinnuleysi aukist í öllum löndunum. Tímabundið var aukningin mest á Íslandi og í Noregi þar sem hlutabætur komu meira til sögunnar en í hinum löndunum, en tölurnar sýna atvinnuleysi með hlutabótum.

„Sé hins vegar litið á stöðuna í lok ársins, þegar hlutabæturnar voru farnar að skipta mun minna máli, má sjá að þróunin hér á landi er mjög frábrugðin hinum löndunum. Hér hefur atvinnuleysi haldið áfram að aukast og var komið yfir 10% í lok ársins. Frá miðju síðasta ári hefur atvinnuleysi verið óbreytt í Finnlandi en minnkað í Svíþjóð, Danmörku og Noregi,“ segir einnig í Hagsjánni.

Meginskýringin á sérstakri þróun hér á landi er sögð stórt hlutverk ferðaþjónustunnar í atvinnulífi og atvinnusköpun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert