Samband ungra sjálfstæðismanna hefur veitt Birgi Jónssyni, fyrrverandi forstjóra Íslandspósts, Frelsisverðlaun SUS í einstaklingsflokki.
Einnig eru veitt verðlaun í flokki lögaðila og þar fær Steðji brugghús vinninginn að þessu sinni.
Í rökstuðningi segir að Birgir hafi tekið við Íslandspósti þegar ríkisfyrirtækið var nálægt greiðsluþroti. Í hans tíð hafi það í staðinn orðið eitt arðsamasta póstfyrirtæki á Norðurlöndunum og um leið hafi þjónustan batnað.
„Stjórn SUS telur að fleiri angar hins opinbera megi taka Birgi Jónsson sér til fyrirmyndar,“ segir í tilkynningu frá SUS.
Brugghús Steðja er lítið brugghús í Borgarfirði, rekið af hjónunum Dagbjarti Arelíussyni og Svanhildi Valdimarsdóttur. Í tilkynningu frá SUS segir að Steðji hafi átt erfitt með að komast að í ÁTVR og þegar ferðamannastraumurinn hafi stoppað hafi brugghúsið opnað vefverslun. Vegna þessa sæti það nú lögreglurannsókn.
„Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, dómsmálaráðherra, hefur lagt fram frumvarp sem myndi heimila fyrirtækjum eins og Steðja að selja beint frá framleiðslustað, en Framsóknarflokkurinn og Vinstri grænir lögðust hins vegar bæði gegn því í ríkisstjórn að heimild til vefverslunar væri hluti af því frumvarpi,“ segir í tilkynningunni.