Svokallað bólusetningadagatal, þar sem fólk í forgangshópum getur séð um það bil hvenær það mun hljóta bólusetningu, verður vonandi tilbúið í dag, að sögn Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis. Hann segist hrifinn af hugmyndinni um dagatalið enda sé mikið ákall eftir því þar sem fólk vilji vita hvar það er í röðinni. Þetta sé þó flókið í framkvæmd.
„Það er ekki auðvelt að gera þetta því við vitum ekki nákvæmlega um dreifingaráætlunum og hversu mikið við fáum af bóluefnum. Mér finnst þetta ekki vera það mikilvægasta sem við erum að gera en það er samt mikilvægt,“ segir Þórólfur í samtali við mbl.is.
Hann telur að aðferð Norðmanna í þessum efnum, þar sem allir geta séð nokkuð nákvæmlega hvenær þeir verða bólusettir, myndi ekki henta hérlendis. Það væri ofboðslega krefjandi að útbúa slíkt.
„Það þarf mikinn mannskap og orku til að gera það. Ef óáreiðanleikinn er mikill og þetta stenst ekki er erfitt að höndla það,“ segir Þórólfur. Nú stendur yfir bólusetning starfsmanna hjúkrunarheimila og þeirra sem eru 70 ára og eldri.
Hann hefur ekki enn verið bólusettur gegn Covid-19, ekki frekar en landlæknir eða heilbrigðisráðherra. Spurður hvort það sé ekki mikilvægt að bólusetja fólk sem er í forsvari fyrir baráttuna við faraldurinn segir Þórólfur að forgangsröðunin sé hugsuð þannig að fyrst í röðinni séu þau sem gætu farið illa út úr sýkingu og þau sem eru í mestri hættu á að smitast. „Við erum ekki þar,“ segir Þórólfur.
Bóluefni AstraZeneca við Covid-19 er nú þegar komið í notkun hér á landi og hafa íslensk stjórnvöld samið um að 230.000 skammtar af efninu komi hingað til lands. Fyrr í febrúarmánuði var greint frá því að niðurstöður rannsóknar bentu til þess að bóluefnið virkaði illa gegn suðurafríska afbrigði kórónuveirunnar.
„Það eru ekki komnar alveg klárar niðurstöður um það. Hins vegar kom bóluefnið í veg fyrir alvarlegar sýkingar af þessu afbrigði. Það voru færri spítalainnlagnir og þar fram eftir götunum þó það virtist ekki koma eins vel í veg fyrir sýkinguna,“ segir Þórólfur um bóluefnið.
Hann telur því vænlegt að bóluefni AstraZeneca sé notað hér á landi. Bóluefnið sýni þó aðeins minni virkni en bóluefni Pfizer og Moderna.
„Eftir einn skammt af bóluefni AstraZeneca er virknin í kringum 70%, eftir tvo skammta rúmlega 80% á meðan virkni hinna er rúmlega 90%. Þetta er enginn stórkostlegur munur,“ segir Þórólfur.