Eftirlit með fólki sem sækir ættingja og vini á Keflavíkurflugvöll hefur verið aukið og verið er að leita leiða til að koma í veg fyrir að fólk keyri Reykjanesbrautina á einkabílnum.
Jón Pétur Jónsson, yfirlögregluþjónn og sviðsstjóri landamærasviðs embættis ríkislögreglustjóra, benti í síðustu viku á 90 tilvik þar sem verið var að sækja einstaklinga sem voru að koma erlendis frá á Keflavíkurflugvelli fyrstu helgina í febrúar.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði til skoðunar hvort flugrútan geti farið af stað á nýjan leik.
„Við erum vör við það með þessu aukna eftirliti að fólk er til dæmis að taka leigubíl niður í bæ í Keflavík og er sótt þar. Brotaviljinn er ansi einbeittur í mörgum dæmum og það er erfitt að bregðast við því,“ sagði Víðir.