Enginn greindist með kórónuveiruna innanlands í gær. Þetta kemur fram á covid.is. Tveir greindust á landamærunum og er beðið eftir mótefnamælingu í öðru tilvikinu.
26 eru í einangrun, þar af 18 á höfuðborgarsvæðinu, og 27 í sóttkví. 8 eru á sjúkrahúsi.
Enginn hefur greinst með Covid-19 innanlands frá 11. febrúar en þá greindust fjórir einstaklingar. Þau smit voru rakin til landamæranna.
Síðast greindist einstaklingur sem ekki var í sóttkví með smit 1. febrúar.
Á Suðurnesjum eru fjórir í sóttkví, tveir á Suðurlandi og tveir á Norðurlandi eystra.
Tvö börn á aldrinum 1-5 ára eru með Covid-19 í dag, níu einstaklingar á aldrinum 18-29 ára og átta á aldrinum 30-39 ára. Á fimmtugsaldri eru fimm með Covid-19 og tveir á sextugsaldri. Ekkert smit er meðal fólks sem er 60 ára og eldri á Íslandi.
Fjórtán daga nýgengi innanlandsmita er 1,9 á hverja 100 þúsund íbúa. Á landamærunum er nýgengið 5,2.