Höskuldur Daði Magnússon
„Engin ástæða er til að ætla annað en að notkun DRG-fjármögnunarkerfis henti ágætlega hér á landi og að þessi aðferðafræði við fjármögnun heilbrigðisþjónustu muni hafa í för með sér marga góða kosti,“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Viðsnúningur í rekstri Karolinska sjúkrahússins undir forystu forstjórans Björns Zoëga hefur vakið athygli. Björn greindi frá því á fundi Sænsk-íslenska viðskiptaráðsins fyrr í vikunni hvaða aðferðum hefði verið beitt og útskýrði þá hvata sem unnið sé með til að auka framleiðni í rekstri sjúkrahúsa. Mörgum þykir athyglisvert að tekist hafi að skila rekstrarafgangi á Karolinska og bæta þjónustu en um leið fækka starfsfólki og stytta boðleiðir. Á síðustu árum hefur hins vegar framleiðni starfsfólks á íslenskum sjúkrahúsum minnkað en starfsmannakostnaður aukist.
Björn greindi frá því að 40% fjármagns spítalans sé breytilegt. Þar er stuðst við framleiðslumælikerfið DRG en samkvæmt því fær spítalinn borgað fyrir það sem hann gerir.
Svandís segir í svari við fyrirspurn Morgunblaðsins að sér hugnist vel hugmyndir um að innleiða þjónustutengda fjármögnun hér og vinna þar að lútandi sé þegar hafin. Vísar hún í skýrslu ráðuneytisins frá því í október.