Ötulasti fyrirspyrjandi Alþingis, Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur haft hægt um sig á yfirstandandi þingi, 151. löggjafarþinginu. Hann hefur lagt fram margfalt færri fyrirspurnir til ráðherra en á fyrri þingum.
Á þriðjudaginn lagði hann fram 19. fyrirspurnina á þessu þingi. Hún var til Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, og vildi Björn Leví fá upplýsingar úr rannsóknarleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar, Hafró.
Fyrirspurnin er svohljóðandi: „Hvar eru birtar upplýsingar um staðsetningu mælinga í rannsóknarleiðöngrum Hafrannsóknastofnunar samkvæmt lengdar- og breiddargráðu frá árinu 1995 til dagsins í dag, ásamt dagsetningu mælinganna, magni og skiptingu afla eftir tegund í hverju togi? Ef þessar upplýsingar eru hvergi birtar, hvernig stendur á því? Er fyrirhugað að birta þær og þá hvar?“
Björn Leví lagði fram vel á annað hundrað fyrirspurnir til ráðherra á síðasta þingi, 150. löggjafarþinginu. Fyrirspurnafjöldi þingmannsins nálgast nú 400 síðan hann settist fyrst á Alþingi sem varamaður 2014. Hann hefur skotist rækilega fram úr Jóhönnu Sigurðardóttur sem átti fyrra met, 255 fyrirspurnir.
sisi@mbl.is