Geta mögulega lagt sóttkvína niður í maí

„Við höfum hvatt alla til þess að vera ekki að …
„Við höfum hvatt alla til þess að vera ekki að ferðast, fara til útlanda, nema það sé algjörlega nauðsynlegt. Hið sama gera aðrar þjóðir,“ sagði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eftir að ákveðin reynsla er komin á að fólk framvísi neikvæðum niðurstöðum úr PCR-prófi við komuna til landsins verður líklega hægt að stytta eða leggja alveg niður sóttkví við komuna til landsins og fækka skimunum við komuna úr tveimur í eina. 

Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á upplýsingafundi almannavarna í dag. 

Breytt fyrirkomulag á landamærum tekur gildi á morgun en þá þurfa þeir sem koma til landsins að framvísa neikvæðum niðurstöðum úr PCR-prófum, auk þess að fara í tvöfalda skimun með sóttkví á milli. Þetta fyrirkomulag gerir fólki því erfiðara fyrir að ferðast til landsins. Spurður um það sagði Þórólfur:

„Við höfum hvatt alla til þess að vera ekki að ferðast, fara til útlanda, nema það sé algjörlega nauðsynlegt. Hið sama gera aðrar þjóðir. Þetta snýst ekki bara um það að það sé erfitt fyrir okkur að fara til útlanda heldur líka að það er mjög erfitt fyrir Íslendinga að ferðast til annarra landa og millilenda í öðrum löndum þar sem menn þurfa að sýna fram á vottorð og svo framvegis.“

„Væri stórkostlegur árangur“

Þann fyrsta maí er ætlunin að við komuna til landsins sé fólk krafið um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi og eina skimun. 

„Það væri stórkostlegur árangur ef við gætum sagt með sanni að það sé öruggt fyrirkomulag á landamærunum og ég bind miklar vonir við það,“ sagði Þórólfur um það. 

„Þessi reynsla mun nýtast okkur vel þegar við förum að huga að frekari tilslökun á landamærum.“

Með þessu sagði Þórólfur að mögulegt væri að stytta alveg eða jafnvel leggja niður sóttkví. Það yrði mun þægilegra fyrir ferðamenn en núverandi fyrirkomulag. Þá sagði hann að reynslan ætti að gefa vísbendingu um það hversu öruggt nýtt fyrirkomulag verður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert