Grímur kannar tengsl við skipulagða glæpastarfsemi

Grímur Grímsson
Grímur Grímsson mbl.is/Hari

Europol og alþjóðadeild Ríkislögreglustjóra hafa verið lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu innan handar í tengslum við morðið í Rauðagerði. Grímur Grímsson, fyrrum yfirmaður miðlægrar gagnadeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu, er tengslafulltrúi Íslands hjá Europol. 

Hann segir að fyrirspurnir lögreglunnar til erlendra lögregluembætta hafi allar snúið að upplýsingaöflun í víðum skilningi. Gera má ráð fyrir því að þetta séu upplýsingar um persónur og leikendur í málinu. Grímur segir að ekki hafi verið óskað eftir aðstoð með öðrum hætti þ.e. í formi liðaauka við rannsóknina. „Það er ekki hægt að tala um fjölda fyrirspurna heldur er það mitt hlutverk að koma á samskiptum við erlend lögregluyfirvöld og Europol í mínu tilviki,“ segir Grímur og bætir við. „Mitt hlutverk og hlutverk Europol yfir höfuð er að kanna tengsl við skipulagða glæpastarfsemi,“ segir Grímur.  

Ekki með aðgang að gagnagrunni 

Hann segist ekki hafa aðgang að erlendum gagnagrunnum heldur beri honum að koma fyrirspurnum til löggæslustofnanna á framfæri. „Það hafa verið að berast svör frá samstarfsaðilum. Þau svör eru bæði í formi efnislegra upplýsinga og líka þannig að engar upplýsingar koma fram,“ segir Grímur.

Grímur fór fyrir rannsókn á hvarfi Birnu Brjánsdóttur árið 2017 og tók það sama ár við starfinu hjá Europol. Þá var Grímur einn umsækjenda um stöðu ríkislögreglustjóra á síðasta ári. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert