Lögreglan beiti engum hótunum

„Þetta snýst fyrst og fremst um samvinnu og það fer …
„Þetta snýst fyrst og fremst um samvinnu og það fer auðvitað bara eftir því hvort menn séu almennt kurteisir hvernig orðræðan verður en lögreglan setur ekki fram neinar hótanir í garð veitingahúsaeigenda,“ segir Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn mbl.is/Eggert Jóhannesson

Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir skýrt að veitingastaðir eigi að loka dyrum sínum klukkan tíu og fólk eigi að vera farið út á þeim tíma. Þá segir hann það ekki sannleikanum samkvæmt að lögreglan hafi beitt hótunum í garð veitingahúsaeigenda. 

Eins og Morgunblaðið greindi frá í upphafi viku gætir óánægju meðal rekstr­araðila veit­ingastaða í miðborg­inni vegna mismunandi skilnings á því hversu lengi veitingastöðum sé heimilt að hafa opið. Lögreglan telur að loka eigi stöðum klukkan tíu að kvöldi og gestir eigi að vera farnir þaðan á þeim tíma. Einhverjir veitingahúsaeigendur telja þó að fólk hafi klukkustund eftir klukkan tíu til þess að klára veitingar og koma sér út. 

„Við leituðum eftir skýringum frá heilbrigðisráðuneytinu þegar þessi umræða kom upp og fengum þær skýringar að staðirnir eigi að loka og fólk eigi að vera farið út á þeim tíma sem tekinn er fram í reglugerðinni,“ segir Víðir í samtali við mbl.is. 

Túlkun ráðuneytisins skýr

Hann segir að þeir veitingahúsaeigendur sem séu á annarri skoðun líti líklega til lögreglusamþykkta og reglna um veitingastaði almennt þar sem er vísað til þess að fólk hafi klukkustund til að yfirgefa staðinn eftir að hann lokar.

„Túlkun heilbrigðisráðuneytisins var mjög skýr, að með þessu ætti staðurinn að tæmast á þeim tíma sem tilgreindur er í reglugerðinni sem er tíu núna. Veitingastaðir sem eru með heimsendingaþjónustu mega afgreiða út um hurðina til ellefu,“ segir Víðir. 

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fylgist með því að reglum um afgreiðslutíma …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fylgist með því að reglum um afgreiðslutíma veitingastaða sem í gildi eru sé fylgt. Facebook-síða lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu

Spurður hvort þessi regla sé þá ekki mjög gjarnan brotin, enda ljóst að margir staðir halda dyrum sínum opnum lengur en til tíu, segir Víðir:

„Þetta er alla vega túlkað á mismunandi hátt og menn eru að reyna að samræma þetta. Þetta er t.d. eitt af því sem verður rætt um í næstu reglugerð, að tilmæli Þórólfs um þetta verði algjörlega skýr og það verði ekki hægt að túlka þetta með öðrum hætti. Við vinnum eftir þeim reglugerðum sem eru settar af heilbrigðisráðuneytinu. Þeirra niðurstaða var mjög skýr í þessu.“

Segir engu offorsi beitt

Aðspurður segir Víðir að í flestum tilvikum komi ekki til deilna vegna þessa, oftast ræði eigendur og lögregla saman „eins og fullorðið fólk“. Mikilvægt sé að allir túlki reglurnar eins. 

„Við höfum ekki verið að beita neinu offorsi eða neinum hótunum eins og haldið hefur verið fram í fjölmiðlum. Þetta snýst fyrst og fremst um samvinnu og það fer auðvitað bara eftir því hvort menn séu almennt kurteisir hvernig orðræðan verður en lögreglan setur ekki fram neinar hótanir í garð veitingahúsaeigenda.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert