Ótímabært að lýsa Ísland veirulaust land

„Þetta er ekkert svo langur tími miðað við ferlið allt …
„Þetta er ekkert svo langur tími miðað við ferlið allt saman. Það borgar sig að gefa þessu smá séns því ef [faraldurinn] fer á flug tekur lengri tíma að ná honum niður aftur,“ segir Thor Aspelund. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Thor Aspelund, prófessor í líftölfræði við Háskóla Íslands, segir ótímabært að lýsa því yfir að Ísland sé algjörlega veirulaust land þó fá smit hafi greinst innanlands síðustu vikur. Hann segir að bíða þurfi í nokkra daga, líklega viku, áður en skynsamlegt sé að farið sé í afléttingar á þeim reglum sem gilda innanlands vegna faraldursins.

„Veit það einhver?“ spyr Thor til baka þegar blaðamaður mbl.is innir hann eftir því hvort veiran gæti leynst einhversstaðar í samfélaginu. Hann segir að ef einhver hefði þá vitneskju væri „bara hægt að aflétta öllu strax.

„Þetta er ekki svo langur tími þannig lagað. Fólk getur borið með sér veiruna í nokkra daga án þess að vita af því,“ segir Thor.

Thor tjáði sig fyrst um málið hjá Morgunvakt Rásar eitt.

Ekki langur tími í stóra samhenginu

Fjögur smit greindust innan sömu fjölskyldunnar fyrir viku síðan vegna einstaklings sem hafði komið frá útlöndum. Fyrir utan þau smit, sem voru nokkuð einangruð, hafa engin kórónuveirusmit greinst innanlands í tíu daga. Mun lengra er síðan samfélagssmit greindust, þ.e. smit hjá fólki sem ekki var í sóttkví við greiningu.

Þannig að þú telur að veiran lúri einhvers staðar í samfélaginu?

„Ég veit ekkert um það, þannig lagað séð. Ég myndi ekki útiloka það. Við þurfum aðeins að bíða og sjá. Þetta er ekkert svakalega langur tími miðað við allt sem hefur gengið á.“

Aðspurður segir Thor að óskir um tilslakanir séu ekki tímabærar en hann skilji þær auðvitað.

„Þetta er ekkert svo langur tími miðað við ferlið allt saman. Það borgar sig að gefa þessu smá séns því ef [faraldurinn] fer á flug tekur lengri tíma að ná honum niður aftur.“

Best að bíða í viku

Hversu marga smitlausa daga þurfum við til þess að vera nokkuð örugg um að það sé lítið sem ekkert af veiru í samfélaginu?

„Við erum alveg örugg með það núna að við erum með mjög lítið af smitum. En að við séum alveg laus, það er annað mál,“ segir Thor sem hefur ásamt fleirum staðið að spálíkani um faraldurinn. Thor segir að sem stendur séu engin spálíkön í vinnslu enda lítið af smitum í samfélaginu og því erfitt að spá fyrir um þróun faraldursins.

„Þó þetta virki sem nokkrir dagar þá er alveg þessi möguleiki að einhver geti verið að bera hana með sér. Það er best að bíða nokkra daga í viðbót, alla vega viku, myndi ég halda,“ bætir Thor við að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert