Allir þeir sjö sem hafa verið handteknir í tengslum við manndráp í Rauðagerði hafa réttarstöðu grunaðra. Fram hefur komið að lögregla telji sig vera með skotmanninn í haldi. Spurður hvort skotvopn hafi fundist sem tengist málinu neitar Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn að tjá sig um það.
„Eins og ég hef sagt þá höfum við lagt hald á smáa muni og allt upp í ökutæki,“ segir Margeir spurður um það hvort skotvopn hafi fundist við rannsókn málsins.
Eru skotvopn meðal þessara muna?
„Ég tjái mig ekki um það,“ segir Margeir.
Hann segir að búið sé að yfirheyra alla þá sem eru í varðhaldi. Þá hefur nokkrum verið sleppt sem ekki eru taldir tengjast málinu. Meðal annarra var konu sleppt úr varðhaldi í gær. Var hún handtekin með öðrum manni sem er í haldi.
Fram kom í dag að þið teljið ykkur vera með skotmanninn í haldi. Teljið þið ykkur vera að fá mynd á málið?
„Rannsókninni miðar bara vel miðað við umfangið,“ segir Margeir.
Nær rannsóknin út fyrir landsteinana?
„Ekki nema að því leytinu til að fyrirspurnir hafa verið sendar,“ segir Margeir.
Þrír hafa kært gæsluvarðahaldsúrskurð til Landsréttar og búast má við því að málin verði tekin fyrir í dag í réttinum. Mennirnir þrír sem tilkynnt var um í gær að hefðu verið handteknir auk þeirra fjögurra sem eru í gæsluvarðhaldi voru dæmdir í vikulangt gæsluvarðhald í gær. Margeiri var ekki kunnugt um að þeir hefðu kært úrskurðinn til Landsréttar þegar mbl.is ræddi við hann nú fyrir skömmu.