Sjö eru í gæsluvarðhaldi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við dráp hins albanska Armando Beqirai í Rauðagerði í Reykjavík um liðna helgi. Tveir aðrir, sem voru handteknir í dag, eru í haldi lögreglu.
Einn þeirra er frá Íslandi og er talinn gegna veigamiklu hlutverki í undirheimum á Íslandi, en aðrir sakborningar í málinu eru frá Spáni, Litháen og Albaníu. Þetta staðfestir lögreglan.
Margeir Sveinsson yfirlögregluþjónn, sem fer með rannsókn málsins, segir að á meðal þess sem verið er að rannsaka þessa stundina sé, hvort málið hafi tengsl við skipulagða glæpastarfsemi. Enn er ekki hægt að fullyrða um það.
Sá sem var handtekinn fyrstur vegna málsins er í gæsluvarðhaldi þar til klukkan fjögur á morgun, samkvæmt gildandi úrskurði. Enn hefur ekki verið ákveðið hvort farið verði fram á framlengingu varðhaldsins. Aðrir eru í haldi til þriðjudags eða miðvikudags í næstu viku.
Allir sjö sakborningar hafa kært gæsluvarðhaldsúrskurð til Landsréttar, sem á aðeins eftir að staðfesta tvo úrskurðina. Má ætla að dómurinn afgreiði þau mál á næstu dögum en almennt eru litlar líkur á að úrskurðum á borð við þessa fáist hnekkt í eins umfangsmiklum málum.
Það er sem sagt ólíklegt að menn sleppi úr haldi.
Lögreglan hefur þegar gefið út að hún telji sig hafa skotmanninn í haldi. Þeir sem eru í gæsluvarðhaldi eru taldir hafa haft beina eða óbeina aðkomu að málinu. Yfirheyrslur hafa staðið yfir í dag og farið hefur verið í fjölda húsleita.
Að öðru leyti segir Margeir að rannsókninni miði vel áfram miðað við umfang málsins, sem er verulegt. Hann segir að það sé ekki stopp: „Þegar við fáum fólk í gæsluvarðhald hlýtur það að vera eitthvað sem við höfum. Ég held að það hljóti að segja sig sjálft.“
mbl.is hefur undir höndum ljósmyndir af skammbyssu sem hafa verið í dreifingu um samfélagsmiðla. Heimildarmenn blaðsins telja að hún geti hafa verið notuð við verknaðinn.
Margeir biðst undan því að tjá sig um það hvort lögreglan hafi þegar lagt hald á drápsvopnið og tekur ekki afstöðu til mynda sem fara í dreifingu í tengslum við málið. Vegna rannsóknarhagsmuna tjáir lögreglan sig ekki um einstaka þætti rannsóknarinnar.