Íslenskir farþegar frá Bandaríkjunum, sem hafa fengið Moderna-bóluefni við Covid-19, þurfa að sæta sömu takmörkunum og þeir sem eru ekki bólusettir, s.s. sóttkví og skimun. Sú væri ekki raunin ef þeir kæmu til landsins frá Evrópu, bólusettir með sama efni, en ástæða þess er sú að Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) hefur ekki samþykkt Moderna-efnið.
Jón Ívar Einarsson, prófessor í læknisfræði við Harvardháskóla, er í þessari stöðu og býst við að þurfa sæta sóttkví og skimun við komu til landsins á morgun – hann segir sérstakt að Íslendingum sé mismunað á þennan hátt við komu til landsins:
„Samþykktarferli WHO er aðallega gert fyrir þjóðir sem hafa ekki infrastrúktur til þess að samþykkja efnin sjálfar,“ segir hann í samtali við mbl.is. Búið er að samþykkja Moderna bóluefnið á Íslandi, Evrópu og í Bandaríkjunum.
„Ég vil auðvitað fara að lögum. Ég hef komið til landsins mánaðarlega og alltaf gert það. En mér finnst samt dálítið skrýtið að þessi tæknilegi vandi sé til staðar. Það er verið að frelsissvipta íslenska ríkisborgara í fimm til sex daga. Það þurfa að vera góðar ástæður fyrir því og þetta finnst mér ekki nógu góð ástæða og ég veit af fleirum sem eru í sömu stöðu og ég,“ segir hann.
Í samtali við mbl.is vísar Guðrún Aspelund, yfirlæknir á sviði sóttvarna hjá Embætti landlæknis, til reglugerðar nr. 161/2021 um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamærin.
Samkvæmt henni verði alþjóðabólusetningarvottorð tekið gilt fyrir þá sem eru í sömu stöðu og Jón Ívar þegar WHO hefur gefið út leyfi fyrir Moderna.
Í 6. gr hennar segir að hafi einstaklingur við komuna til landsins undir höndum vottorð um ónæmisaðgerð vegna Covid-19 (alþjóðabólusetningarskírteinið) í samræmi við alþjóðaheilbrigðisreglugerð WHO sé honum ekki skylt að fara í sýnatöku né framvísa vottorði um neikvætt PCR-próf, skv. 4. gr.
„Sama gildir um bólusetningarvottorð sem gefið er út í EES/EFTA-ríki sem uppfyllir leiðbeiningar sóttvarnalæknis um vottorð, svo sem um mat á vottorðum við landamæri og efni og form vottorða, t.a.m. um tungumál og hvaða upplýsingar vottorð skal innihalda, svo sem nafn, fæðingardag, ríkisfang, hvar og hvenær bólusetning fór fram, framleiðanda bóluefnis og upplýsingar um aðila ábyrgan fyrir útgáfu vottorðs,“ segir þar einnig.