Hæstiréttur staðfesti í dag dóm Landsréttar yfir Þórhalli Guðmundssyni miðli, þar sem hann er fundinn sekur um að hafa fróað manni á tvítugsaldri gegn hans vilja, þegar maðurinn þáði þjónustu Þórhalls sem heilara árið 2010.
Ákæran kom ekki fram fyrr en 2016, ári eftir að fórnarlambið hafði hafið að sækja sér sálfræðiþjónustu. Hann og Þórhallur eru þeir einu sem eru til frásagnar um samskipti þeirra á legubekk á heimili Þórhalls, en dómurinn mat framburð þolandans sem trúverðugan.
Þórhallur neitaði allri sök í héraðsdómi, Landsrétti og loks Hæstarétti og krafðist sýknu. Í staðinn er honum með dómi Hæstaréttar gert að sæta 18 mánaða fangelsi og greiða þolanda 800 þúsund krónur í miskabætur ásamt vöxtum og dráttarvöxtum.
Maðurinn kynntist Þórhalli á miðilsfundi þremur eða fjórum árum áður en brotið var framið 2010. Í framhaldi af öðrum fundi fór hann svo í heilun til miðilsins vegna bakverkja.
Maðurinn fór reglulega í tíma til Þórhalls og fram kemur að miðillinn hafi orðið eins og góður vinur mannsins.
Þórhallur hafi hins vegar farið að sýna af sér vafasama hegðun í byrjun árs 2010. Hann hafi tekið á móti manninum í bol og stuttbuxum eða náttbuxum og farið að taka manninn úr bolnum og farið að teygja á honum.
Síðan fór Þórhallur, að því er segir í dómnum, „smátt og smátt að færa sig upp á skaftið“ í samskiptum við þolandann. Loks hafi hann fróað honum þar sem hann lá á bekknum. Í dómnum er sagt að með háttsemi sinni hafi Þórhallur þar með „freklega rofið það traust sem brotaþoli bar til hans“.