„Þetta er gríðarlega mikilvægt mál og er í algjörum forgangi hjá okkur,“ segir Berglind Bergmann, formaður félags almennra lækna, um breytingar á tilhögun læknanáms og kandidatsárs í Noregi og Svíþjóð sem hafa mikil áhrif á að minnsta kosti 500 almenna lækna á Íslandi sem huga að sérnámi þar.
Nú þegar eru íslenskir sérnámslæknar sem stunda sérnám í Noregi að sjá fram á að þurfa að endurtaka kandídatsárið sitt vegna breytinga á skipulagi læknanáms þar í landi.
Skipulagi náms í læknisfræði í Noregi var breytt árið 2019 þannig að læknanemar fá nú fullt lækningaleyfi eftir sex ára háskólanám. Sérnámið hefst svo á átján mánuðum af því sem sambærilegt er íslensku kandídatsári. Áður höfðu norskir læknanemar fengið lækningaleyfi sitt eftir sex ára nám og átján mánaða „turnus“, sem var talið sambærilegt íslensku kandídatsári. Því komust læknanemar frá Íslandi beint inn í sérnámið, án þess að þurfa að endurtaka kandídatsárið eins þeir þurfa nú að gera.
Útlit er fyrir að sama staða komi upp fyrir íslenska sérnámslækna í Svíþjóð innan tíðar.
„Það hefur tekið tíma til að fá stjórnvöld til að bregðast við þessu en það er komið í fullan gang núna. Heilbrigðisráðuneytið skipaði vinnuhóp sem vinnur að þessum málum,“ segir Berglind og bendir á að fyrrverandi formaður félags almennra lækna sitji í hópnum.
Eins og staðan er því núna þurfa sérnámslæknar í Noregi, og fljótlega Svíþjóð, að endurtaka kandídatsárið og seinka því þannig að hefja sinn starfsferil. Berglind segir að unnið sé að því hvernig þessu verði breytt.
„Mér skilst að það verði einhverjar breytingar á þá leið að læknanemar sem læra hér á landi útskrifast með lækningaleyfi. Þeir myndu því taka íslenskt kandídatsár með lækningaleyfi sem mögulega fengist metið,“ segir Berglind.
„Það verður væntanlega ekki hægt að breyta þessu fyrir þá sem eru á sjötta ári núna, það er fimmtíu manna hópur og svo eru rúmlega 400 manns í félaginu sem flestir hafa tekið kandídatsár hér á landi án þess að hafa fullt lækningaleyfi,“ segir Berglind.
Það þurfi að finna lausn fyrir allt að 500 manna hóp sem fyrst, að mati Berglindar.
Á næstunni verður fræðslukvöld fyrir félagsfólk þar sem nánar verður farið yfir málin.