Fljótlega í næstu viku eða nú um helgina mun Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir skila heilbrigðisráðherra tillögum um tilslakanir innanlands vegna kórónuveirufaraldursins.
Þetta kom fram í máli Þórólfs á upplýsingafundi almannavarna. Hann sagði að það yrði að fara hægt í tilslakanir og hann muni ekki leggja til að grímuskylda verði aflögð á næstunni.
Hertar aðgerðir á landamærum taka gildi á morgun en þá þurfa allir sem hingað koma að framvísa neikvæðu kórónuveiruprófi frá brottfararstað og má prófið ekki vera eldra en þriggja sólarhringa.
Auk þess verður áfram skimun á landamærunum og svo önnur eftir fimm daga skimunarsóttkví.
Enginn hefur greinst með Covid-19 innanlands frá 11. febrúar en þá greindust fjórir einstaklingar. Þau smit voru rakin til landamæranna.
Síðast greindist einstaklingur sem ekki var í sóttkví með smit 1. febrúar.