Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra segir fagnaðarefni að lög um kynferðislega friðhelgi hafi verið samþykkt á Alþingi í gær.
„Það er afar ánægjulegt að þetta frumvarp hafi orðið að lögum. Það hefur auðvitað verið löng barátta fyrir því að þessi löggjöf endurspegli betur samfélagið sem við búum í,“ segir hún. Frumvarpið byggist á skýrslunni „Kynferðisleg friðhelgi - umfjöllun um réttarvernd og ábendingar til úrbóta“.
„Það er veruleiki margra einstaklinga í samfélaginu okkar og sérstaklega ungs fólks að verið sé að nýta þessa birtingarmynd ofbeldis,“ segir hún. Lögin fela í sér breytingar á köflum almennra hegningarlaga þar sem brot á kynferðislegri friðhelgi eru gerð refsiverð, en þar er átt við heimildarlausa töku og birtingu á kynferðislegu eða nærgöngulu efni.
„Löggjöfin okkar hefur ekki náð nægilega vel utan um þessi atriði sem hafa verið að birtast okkur. Það hefur verið snúið að ná utan um þetta en niðurstaðan á banni gegn broti gegn kynferðislegri friðhelgi fólks er tæknihlutlaust og mun vonandi ná utan um öll þessi fjölmörgu atriði, hvort sem það er að útbúa kynferðislegt eða nærgöngult efni, hóta að dreifa því eða dreifa því án samþykkis, segir hún.
Spurð um áhrifaþætti þess að frumvarpið varð að lögum segir Áslaug:
„Auðvitað hefur verið ákall í lengri tíma. Við höfum séð það í ýmsum byltingum og getum þakkað þeim sem ruddu brautina í því. Byltingar eins og druslugangan og Free the nipple-byltingin sýndu að það að senda nektarmynd fæli ekki í sér samþykki fyrir því að hún sé áframsend,“ segir hún og heldur áfram:
„Ég setti þetta á þingmalaskrána hjá mér þegar ég kom inn í ráðuneytið og lagði mikla áherslu á að þetta myndi klárast og er ví afar ánægjulegt að sjá þetta orðið að lögum. ég hef heyrt þða frá fjölmörgum aðilum að þetta muni breyta miklu,“ segir hún að lokum.