Tveir karlmenn, Íslendingur og Rúmeni, voru í Héraðsdómi Reykjaness dæmdir í átta og tíu mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir árás á par í Laugardalnum vorið 2016.
Fyrir dómi lýsti parið því hvernig þrír menn á grárri bifreið hefðu ráðist á þau með hamri og piparúða, þar sem þau sátu í bifreið fyrir utan heimili sitt í Laugardalnum. Mennirnir þrír voru íslenskir feðgar og sá rúmenski. Ýmis vitni voru að árásinni, en nágrannar sem heyrðu ólætin fóru út í glugga og sáu hvað um var að vera. Náði eitt vitni myndbandi af árásinni og afhenti það lögreglu.
Mennirnir neituðu báðir sök og sögðust ekki þekkjast þrátt fyrir að hafa unnið hjá sama fyrirtæki. Í dómnum segir að skýringar mannanna séu ótrúverðugar. Ekkert hafi komið fram sem rengi framburð brotaþola eða gefi tilefni til að ætla að þeir hefðu hag af því að segja ósatt frá. Þvert á móti hafi gögn málsins, svo sem myndefni og framburður vitna, rennt stoðum undir hann.
Vegna þess hve miklar tafir urðu á málsmeðferð er dómurinn skilorðsbundinn. Fékk Íslendingurinn, sem hafði áður fengið refsidóm, tíu mánaða dóm en Rúmeninn átta mánaða, sem fyrr segir.
Voru þeir enn fremur dæmdir til að greiða manninum 400 þúsund krónur í miskabætur en kærustu hans 250 þúsund krónur.