Helgi Hrafn Gunnarsson þingmaður Pírata spurði Sigurð Inga Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í óundirbúnum fyrirspurnatíma á Alþingi í dag hvort ekki væri tilefni til að endurskoða lagaákvæði sem heimilar íslenskum stjórnvöldum að stöðva fjarskipti á ófriðartímum.
„Aðfaranótt 1. febrúar tók herinn völdin í Mjanmar, taldi kosningar þar ólögmætar. Eitt af því sem herinn hefur gert í kjölfarið er að slökkva eða kveikja á internetinu af og til, ef svo mætti að orði komast, til að koma í veg fyrir samskipti sem hann telur óæskileg. Þá hefur það vakið athygli okkar að í gildandi lögum er ákvæði sem heimilar íslenskum yfirvöldum að stöðva fjarskipti á ófriðartímum og við að garfa í lögskýringargögnum verð ég að segja að það er frekar óljóst, alla vega fyrir þann sem hér stendur, nákvæmlega hvernig ófriðartímar eru skilgreindir, sér í lagi nú í seinni tíð,“ sagði Helgi Hrafn.
Þá sagði Helgi að sú breyting hefði síðan orðið á samfélaginu frá því að ákvæðið var fyrst sett í lög að fjarskipti snerti miklu stærri og víðfeðmari hluti af lífi okkar en áður. „Þetta snýst ekki bara um síma, útvarp og þess háttar, heldur meira eða minna allt sem við gerum í lífinu og er því mun ríkara inngrip í dag en var á sínum tíma,“ sagði Helgi.
Sigurður Ingi sagði í svari sínu að því væri talsvert ólíku saman að jafna, ástandinu í Mjanmar og ýmsum öðrum löndum og svo því sem verið væri að reyna að tryggja með ákvæðinu hér á landi. Hann sagðist taka undir það að fjarskipti og aðgangur að netinu skipti gríðarlegu máli.
„Það er hins vegar þannig að við sem herlaus þjóð höfum kannski frekar haft áhyggjur af því að hingað kæmu aðilar sem myndu beita þessum tækjum okkar til þess að dreifa áróðri sínum og loka fyrir annað og þá er nauðsynlegt fyrir okkur sem þjóð að geta brugðist við og varist slíkri ógn að utan,“ sagði Sigurður Ingi.
Sagðist Sigurður telja að hann og Helgi væru sammála um það að „við þurfum ekki að óttast að það gerist innan frá eins og í herveldinu Mjanmar sem hefur ítrekað tekið völdin af lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum“.
„Ég lít svo á að við séum með þessum ákvæðum að tryggja stöðu okkar gagnvart ytri ógn. Skilgreiningu á ófriðartímum, hvað það er, held ég að væri ágætt að þingnefndin myndi leggjast svolítið yfir og skilgreina í greinargerð þannig að menn óttist ekki að það sé tæki þarna fyrir einhver undarleg stjórnvöld framtíðarinnar að beita. Ég óttast það ekki. Ég lít miklu frekar svo á að þetta sé varnartæki fyrir okkur gagnvart utanaðkomandi ógn og þannig gætum við komið í veg fyrir einhliða áróður eða misnotkun slíkra aðila á þessum fjarskiptum okkar gegn okkur,“ sagði Sigurður.
Helgi Hrafn sagðist þá ekki hafa áhyggjur af því að Sigurður Ingi beiti ákvæðinu í bráð. Hins vegar verði hið óhugsandi „mjög hratt hugsandi og raunverulegt ef og þegar til valda komast stjórnvöld sem eru reiðubúin að misnota svona völd“.
„Það þarf ekki að leita langt, það þarf ekki að leita alla leiðina til Mjanmar til að finna slík dæmi. Af og til komast til valda með lýðræðislegum hætti, eða alla vega samkvæmt því lýðræðiskerfi sem er við lýði hverju sinni, stjórnvöld sem misnota völd sín og tæknina, t.d. í Bandaríkjunum þegar Trump komst til valda. Ég vona að fæstir hér óttist það ekki. En við sjáum þróun í Ungverjalandi og Póllandi og víðar þar sem valdhyggjan er að ná mjög mikilli fótfestu. Og þetta er alltaf skýringin, skýringin fyrir svona ákvæðum er alltaf sú að hið innra ríki sé að verjast erlendri árás. En möguleikinn er fyrir hendi,“ sagði Helgi Hrafn.
„Sömuleiðis þegar kemur að ófriðarástandi. Ég geri ráð fyrir því að þetta hafi verið sett á tímum kalda stríðsins þegar ófriðurinn í heiminum var kannski ekki einfaldari en skýrari en í dag. Í dag er mjög óljóst hvað hugtakið „ófriðartímar“ þýðir. Maður veltir fyrir sér hlutum eins og búsáhaldabyltingunni eða hryðjuverkastríðinu eða því um líku. Það eru margar leiðir til að kalla eitthvert ástand ófriðarástand ef viljinn er fyrir hendi hjá yfirvöldum. Þá finnst mér mikilvægt að við séum með sem minnst af ákvæðum sem heimila vondum stjórnvöldum að misnota slík ákvæði.“