„Verra en versta mögulega niðurstaða“

Flugvirkjar að störfum.
Flugvirkjar að störfum. mbl.is/Árni Sæberg

„Samanborið við það sem við lögðum upp með í samningaviðræðunum er þetta verra en versta mögulega niðurstaða,“ segir Guðmund­ur Úlfar Jóns­son, formaður Flug­virkja­fé­lags Íslands, um niðurstöðu gerðardóms í kjaradeilu flugvirkja Landhelgisgæslu Íslands við ríkið.

Úrskurður gerðadóms var birtur á vef Ríkissáttasemjara í dag og segir Guðmundur gerðardóminn hafa komist að þeirri niðurstöðu að kjarasamningur flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni til næstu tveggja ára byggi á kröfugerð ríkisins frá því í október.

Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður flugvirkjafélags Íslands.
Guðmundur Úlfar Jónsson, formaður flugvirkjafélags Íslands. Ljósmynd/Aðsend

Verkefni gerðardóms var að skera úr um hvort tenging milli kjarasamninga flugvirkja Landhelgisgæslunnar og flugvirkja Icelandair skyldi vera óbreytt eða hvort henni yrði breytt og þá á hvaða formi nýir kjarasamningar þyrftu að vera.

Gerðardómur hafnaði umræddri tengingu og var því nýr kjarasamningur gerður frá grunni, eins og fram kemur í gerðardómi.

Guðmundur segist allt eins hafa átt von á einherjum „ríkissamning“ en segir ótrúlegt að kjarasamningurinn sé „ríkissamningur sem framkallar kjaraskerðingar“ eins og hann orðar það.

„Það var ekkert hlustað á sjónarmið flugvirkja í þessum dómi.“

Flugvirkjar vildu lengri samning en Guðmundur segir ekkert hafa verið tekið tillit til krafna þeirra. 

„Flugvirkjar gæslunnar eru að verða fyrir launatapi með þessum samning sem hleypur á tugum þúsunda,“ segir Guðmundur og skýrir mál sitt:

„Það er vegna hækkunar á reynslutíma í tegundarálögum þrátt fyrir að samningurinn feli í sér kjarahækkanir á grunnkaupi þá ganga þær til baka á öðrum sviðum.“

Hann segir að megnið af sérákvæðum um störf flugvirkja sé numið á brott. „Þetta er verra en við gátum átt von á verst.“

Hægt er að skoða úrskurð gerðardóms hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert