Vígslubiskupi gert að bera vitni í máli gegn kirkjunni

Héraðsdómur Suðurlands.
Héraðsdómur Suðurlands. mbl.is/Kristinn Magnússon

Héraðsdómur Suðurlands úrskurðaði í dag að sr. Kristjáni Björnssyni vígslubiskupi sé skylt að koma fyrir dóm sem vitni til að svara munnlega spurningum sem beint er til hans um málsatvik í máli Kristins Jens Sigurþórssonar gegn þjóðkirkjunni. 

Í úrskurðinum er þjóðkirkjunni gert að greiða Kristni 150 þúsund krónur í málskostnað. 

Kristinn var sóknarprestur að Saurbæjarprestkalli frá 1996 þar til prestkallið var lagt niður vorið 2019. Kristinn hefur síðan átt í deilum við þjóðkirkjuna um starfslok sín og niðurlagningu prestakallsins. Snýr ágreiningurinn meðal annars að embætti sem Kristinn kveður að sér hafi verið boðið á fundi hans og sr. Kristjáns í ágúst 2019 sem þá hafði komið fram sem biskup fyrir hönd þjóðkirkjunnar. Hafi Kristinn í kjölfar fundarins ákveðið að þekkjast boðið, en þeirri ákvörðun síðan verið hafnað af hálfu þjóðkirkjunnar og því haldið fram að umrætt embætti stæði honum ekki lengur til boða. 

Fyrir dómi byggði þjóðkirkjan á því að Kristján verði ekki leiddur fyrir dóminn þar sem hann sé aðili málsins og því ekki skylt að gefa vitnaskýrslu í málinu. Vísaði kirkjan til þess að þegar horft sé til stjórnsýslu þjóðkirkjunnar og þess regluverks sem um stofnunina gildi blasi við að í máli er varðar Kristinn hafi biskupi Íslands verið heimilt að fela sr. Kristjáni sem vígslubiskupi þá biskupsþjónustu að sinna þessu tiltekna máli. 

Það hafi sr. Kristján gert og hafi biskupsþjónustu lokið með skilum tveggja minnisblaða um framgang og framkvæmd verkefnisins. 

Kristinn byggði á því fyrir dómi að sr. Kristján hefði ekki lögvarða hagsmuni í málinu og standi því ekki til að stefna honum persónulega. 

Í úrskurði héraðsdóms kemur fram að ekki sé fallist á það með þjóðkirkjunni að sr. Kristján teljist vera fyrirsvarsmaður varnaraðila í skilningi réttarfarslaga, þótt hann hafi komið fram fyrir hönd biskups samkvæmt ákvörðun kirkjuráðs. Verður sr. Kristján því að bera vitnisburð í máli Kristins gegn kirkjunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert