70% einstaklinga bera mikið traust til heilsugæslunnar á landsbyggðinni og eru 69,4% ánægð með þjónustuna að því er fram kemur í nýrri könnun Maskínu fyrir Sjúkratryggingar Íslands.
Kannanir sem þessar eru liður í eftirliti Sjúkratrygginga Íslands með þjónustu sem veitt er á grundvelli samninga við stofnunina. Slembiúrtak var gert meðal þeirra sem sótt höfðu heilsugæslustöðvar á landsbyggðinni undangengna 12 mánuði, en könnunin var lögð fyrir 5. til 30. nóvember og tóku rúmlega sex þúsund einstaklingar þátt.
85,6% svarenda töldu viðmót og framkomu starfsfólks almennt gott. Nærri 86% sögðust hafa fengið þjónustu á heilsugæslustöð innan viku, en þó telja 49% það brýnt að stytta bið eftir þjónustu hjá heilsugæslunni. Um 39% telja mikilvægt að auðvelda aðgengi að læknum í síma og tæp 36% óska eftir að geta skráð sig á fastan heimilislækni.
Þegar niðurstöður eru bornar saman milli heilbrigðisstofnananna sex, Austurlands, Norðurlands, Suðurlands, Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða, sést sterk fylgni á milli ánægju svarenda og hversu margir eru með skráðan heimilislækni, að því er fram kemur í tilkynningu SÍ.
Vekur það athygli að um 90% svarenda telja þjónustu heilsugæslustöðva eins eða jafnvel betri þrátt fyrir kórónuveirufaraldurinn.