DNA-sýni staðfestir sekt í nauðgunarmáli

Landsréttur.
Landsréttur. mbl.is/Hanna

Landsréttur þyngdi í dag dóm yfir Sindra Erni Garðarssyni fyrir nauðgun og hlaut hann 2,5 ára fangelsi, en hafði í héraði fengið tveggja ára dóm. DNA-greining úr nærbuxum og kynfærum Sindra staðfesti að lífsýni væru þar bæði úr honum og stúlkunni, en það taldist staðfesting á því að hann hefði nauðgað henni.

Fram kemur í dóminum að maðurinn hafi haft samræði og önnur kynferðismök við stúlkuna þar sem hún lá sofandi í rúmi í svefnherbergi. Vaknaði stúlkan við háttsemi mannsins en þorði ekki að bregðast við. Var maðurinn fundinn sekur um að hafa nýtt sér aðstöðu sína og varnarleysi stúlkunnar með grófum hætti þar sem hún gat ekki spornað við verknaðinum þar sem hún var sof­andi og vegna svefndr­unga og ölv­un­ar. 

Bróðir mannsins var sofandi í sama rúmi

Nauðgunin átti sér stað á heimili bróður mannsins, en þangað höfðu þau og bróðirinn komið ásamt fleira fólki eftir skemmtanahald. Stúlkan og bróðirinn höfðu samfarir þetta kvöld og fóru svo að sofa saman í rúmi bróðurins. Tekið er fram að stúlkan hafi á þessum tíma verið 18 ára gömul.

Þegar þau voru sofnuð kom Sindri, sem tekið er fram að sé 39 ára, inn í herbergið og lagðist upp í rúmið. Sagðist hann fyrir dómi aðeins hafa sofið í rúminu, en að hann hafi vaknað við eitthvert „klafs“ þegar einhver var að koma sér fyrir í rúminu. Hann hafi svo farið fram, fengið sér vatn, farið á salernið og komið aftur inn í herbergið. Þá hafi hann áttað sig á því að bróðir sinn hafi verið í herberginu og því farið út.

Þetta kom ekki saman við framburð stúlkunnar sem lýsti því að hún hafi vaknað við að Sindri var að „fara niður“ á sig og snerta hana. Hún hafi fyrst talið að það væri bróðirinn, en svo áttað sig á því að þetta væri einhver annar. Hún hafi frosið á því augnabliki og stuttu síðar hafi maðurinn reynt að hafa við hana samfarir þótt hún væri ekki viss hvort hann hafi náð þeim vilja fram.

Skýringar mannsins langsóttar og ósennilegar

Sýni úr nærbuxum mannsins og af kynfærum hans var sent í DNA-próf til Svíþjóðar og kom þá í ljós að þar var að finna bæði lífsýni úr stúlkunni og honum. Þrátt fyrir það neitaði hann fyrir nauðgunina og sagði að lífsýni stúlkunnar gæti hafa borist með öðrum leiðum á sig. Í vitnisburði sérfræðings fyrir dómi kom fram að aldrei væri hægt að útiloka með öllu þessa skýringu, „en hverfandi líkur væru á að finna mætti eitthvert nothæft DNA úr brotaþola eftir viðkomu í laki eða sængurveri og þaðan á hendur ákærða og síðan í innanverðar nærbuxur hans og undir forhúðina á lim hans“.

Segir í dóminum að skýringar Sindra séu því bæði langsóttar og ósennilegar og ekki byggt á þeim í málinu. Það verði á móti að telja hafið yfir skynsamlegan vafa að hann hafi nauðgað konunni og haft við hana samræði.

Er Sindri því fundinn sekur um nauðgunina og gert að sæta 2,5 ára fangelsi auk þess að þurfa að greiða 1,8 milljónir í miskabætur auk sakarkostnaðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert