Dómar mildaðir í Bitcoin-máli

Sindri Þór Stefánsson við þingfestingu málsins í héraðsdómi. Hann hlaut …
Sindri Þór Stefánsson við þingfestingu málsins í héraðsdómi. Hann hlaut 3,5 ára dóm í Landsrétti fyrir hlut sinn í málinu. mbl.is/Eggert

Dómur yfir fimm mönnum í Bitcoin-málinu svokallaða var í dag mildaður í Landsrétti. Sindri Þór Stefánsson, sem talinn hefur verið höfuðpaur í málinu fékk 3,5 ára dóm í Landsrétti en hafði áður hlotið 4,5 ár í héraðsdómi. Fimmmenningarnir þurfa samtals að greiða 95 milljónir vegna málsins.

Matthías Jón Karlsson, sem hafði hlotið 2,5 ára dóm í héraði fékk 15 mánaða dóm í Landsrétti og dómur Hafþórs Loga Hlynssonar, sem var 20 mánuðir í héraði var mildaður í 8 mánuði í Landsrétti. Þetta er ekki fyrsti dómur Hafþórs á árinu, en í janúar hlaut hann 20 mánaða dóm fyrir peningaþvætti í Landsrétti, sem þá þyngdi dóm héraðsdóm sem hafði verið 12 mánuðir.

Viktor Ingi Jónasson fékk í Landsrétti átta mánaða dóm fyrir þátt sinn í málinu og Pétur Stanislav Karlsson fimm mánuði fyrir sinn þátt. Þurfa fimmmenningarnir að greiða Advania, sem var eigandi eins gagnaversins samtals 33,7 milljónir, en Landsréttur staðfesti þar ákvörðun héraðsdóms.

Samtals 95 milljónir í sakarkostnað, málsvarnarlaun og bætur

Þá þurfa þeir samanlagt að greiða um 13,9 milljónir í málsvarnarlaun verjenda sinna, en greiðslurnar eru frá 2,3 milljónum upp í 3,3 milljónir hjá hverjum, hæst hjá Sindra Þór. Áður hafði hann þurft að greiða 9,3 milljónir í málsvarnarlaun fyrir héraði, Matthías 7,8 milljónir og aðrir minna. Samtals eru því málsvarnarlaun vegna málsins orðin yfir 46 milljónir sem fimmmenningarnir þurfa að greiða, auk skaðabóta til Advania upp á 33,7 milljónir, sakarkostnað fyrir héraði upp á 14,6 milljónir og 642 þúsund fyrir Landsrétti. Samtals eru það málsvarnarlaun, skaðabætur og sakarkostnaður upp á 95 milljónir.

Í málinu var tekist á um eitt stærsta þjófnaðarmál síðari ára hér á landi, en meðal annars var stolið um 600 öflugum tölvum sem notaðar voru við að grafa eftir bitcoin-mynt.

Fyrst var brot­ist inn dag­ana 5. og 6. des­em­ber í gagna­ver Al­grim Consulting slf. og BDC Min­ing ehf., sem bæði eru á Ásbrú. Þá hafi verið reynt, án ár­ang­urs, að fara inn í annað gagna­ver BDC Min­ing  á tíma­bil­inu 5.-10. des­em­ber.

Aðfaranótt 15. des­em­ber hafi svo verið farið inn í gagna­ver AVK ehf. í Borg­ar­nesi og aðfaranótt ann­ars í jól­um hafi aft­ur verið reynt við bæði gagna­ver BDC Min­ing ehf. á Ásbrú. Menn­irn­ir hafi hins veg­ar flúið er þjófa­varna­kerfi fór í gang.

Síðasta inn­brotið var svo framið aðfaranótt 16. janú­ar og var það í gagna­veri Advania Data Center á Ásbrú.

And­virði þýf­is­ins var metið á 96 millj­ón­ir króna en tjónið á 135 millj­ón­ir króna. Búnaður­inn hef­ur ekki fund­ist.

Málið var rekið fyrir Landsrétti um miðjan janúar, en vegna sóttvarnaaðgerða lengdist aðalmeðferð málsins talsvert og stóð yfir í þrjá daga.

Málið vakti mikla athygli þegar það kom upp. Bæði fyrir umfang og verðmæti þýfisins, en síðar eftir að Sindri Þór flúði úr fangelsinu að Sogni og fór til Amsterdam í Hollandi þar sem hann var handtekinn nokkrum dögum síðar. Þá hefur sagan um ránið vakið áhuga kvikmyndagerðafólks að gera um það heimildarmynd, auk þess sem erlendir miðlar hafa fjallað um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka