Borgarráð hefur samþykkt að hefja endurbætur á leikskólanum Laugasól í Laugardal og fjölga þar leikskólaplássum um 46 til 50 en í dag eru þau 95 talsins. Ráðast á í endurbætur á kjallara leikskólans svo hægt sé að bæta við tveimur deildum og fjölga plássum um 46 til 50.
Kjallari hússins er niðurgrafinn og hefur hingað til verið nýttur sem geymsla, starfsmannarými, listasmiðja og fjölnota salur en þar að auki hefur ein deild skólans nýtt hluta hans sem íverurými barna.
Frumkostnaðaráætlun vegna breytinga á húsnæði og lóð fyrir starfsemi leikskólans er 410 milljónir króna, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá borginni. Óháð framkvæmdinni sé gert ráð fyrir að ráðast þurfi í nauðsynlegt viðhald á efri hæð hússins og ytra byrði þess fyrir um 140 milljónir króna, á næstu árum.
Eftir breytingarnar verður pláss fyrir samtals 141-145 börn á sex deildum á Laugasól en gert er ráð fyrir 10-12 nýjum stöðugildum við leikskólann í kjölfar stækkunar en stöðugildi við leikskólann eru nú 28.