Boeing 767-vél Icelandair leggur af stað í flug til Suðurskautslandsins í næstu viku en um er að ræða leiguflugsverkefni á vegum Loftleiða, dótturfélags Icelandair Group, sem sérhæfir sig í leiguflugi og ráðgjöf. Áætlað er að vera á suðurskautinu um næstu mánaðamót.
Samkvæmt Ásdísi Ýr Pétursdóttur, upplýsingafulltrúa Icelandair, er ferðinni heitið til norsku rannsóknarstöðvarinnar Troll sem Norsk Polar Institut (NPI) á og rekur. Hún er staðsett á Prinsessu Mörtu-ströndinni (Princess Martha Coast) sem er á svæði sem nefnt er eftir Maud, fyrrverandi drottningu Noregs.
Tilgangur ferðarinnar er að sækja starfsfólk rannsóknarsetursins og fljúga því heim til Noregs. Vísindamenn starfa jafnan á svæðinu frá nóvember og fram í febrúar.
„Flogið verður í gegnum Höfðaborg í Suður-Afríku á leiðinni á Suðurskautslandið og aftur í bakaleiðinni áleiðis til Óslóar,“ segir Ásdís. Hún segir mikinn undirbúning vegna ferðarinnar enda aðstæður um margt sérstakar. Verkefnið skapi Icelandair enn fremur mikilvægar tekjur sem komi sér vel nú þegar hefðbundið farþegaflug er í lágmarki.
Alls verður 20 manna áhöfn Icelandair í fluginu; sex flugmenn, 13 flugfreyjur og flugþjónar og einn flugvirki.
„Þetta er einstakt verkefni en Loftleiðir hafa getið sér gott orð alþjóðlega á undanförnum árum í verkefnum á framandi slóðum og það er gaman að segja frá því að með þessu verkefni hefur félagið komið til allra sjö heimsálfa heimsins á síðustu tólf mánuðum,“ segir Ásdís.