Halldór Skúlason, sundlaugarvörður í Álftaneslaug til tólf ára, kom á þriðjudag manni til bjargar sem hafði farið í hjartastopp í sundlauginni.
Halldór segir í samtali við mbl.is að atvikið hafi átt sér stað snemma á þriðjudagsmorgun.
„Við opnum á morgnanna klukkan hálf sjö og þessi maður er eiginlega fyrsti viðskiptavinurinn, hann og félagar hans fara ofan í akkúrat klukkan hálf sjö og ég held að hjartað í honum hafi bara stoppað,“ segir Halldór.
Maðurinn fór aldrei í kaf þökk sé skjótum viðbrögðum laugargesta.
„Það er maður við hliðina á honum í lauginni, og þegar hann leggst yfir línuna sem er á milli brauta kippir sá maður í hann svo hann detti ekki ofan í og kallar í mig. Við komum honum upp á laugarbakkann og ég hringi í neyðarlínuna og byrja svo bara að hnoða,“ segir Halldór.
Halldór og sundlaugargestir beittu endurlífgun í sjö til átta mínútur þar til sjúkrabíll kom á staðinn.
„Hann var alveg dáinn, sjúkrabíllinn kom svo eftir einhverjar sjö eða átta mínútur og þeir þurftu að gefa honum tvö stuð til að koma hjartanu í gang. Hann leikur núna á alls oddi upp á hjartadeild. Þetta endaði eins vel og hugsast gat. Eina er að hann kvartar undan verki í brjóstkassanum og er smá marinn þar eftir mig,“ segir Halldór og bætir við:
„Ég var náttúrulega alls ekki einn, það voru þarna sundlaugargestir sem hjálpuðu og þeir blésu meðan ég hnoðaði og náðu í eitthvað hlýtt á manninn svo hann myndi ekki kólna þarna úti.“
Halldór segir engar sambærilegar uppákomur hafa komið upp í Álftaneslaug áður.
Spurður hvort að það hafi ekki verið mikið áfall að þurfa að takast á við svona aðstæður segir Halldór:
„Ekki á meðan á þessu stendur en þú ferð svo í smá sjokk tíu mínútum seinna þegar maðurinn er farinn og þú veist kannski ekkert hvernig framhaldið verður. Þú átt ekki endilega von á því að fá einhverjar fréttir, en mágur hans kemur alltaf með honum í sund á morgnanna og leyfði mér að fylgjast með. Ég heyrði í gær að hann væri með fullri heilsu svo það létti mikið á manni. Ég á von á honum hérna í laugina á mánudagsmorgun þess vegna.“