Héraðsdómur Reykjavíkur hefur framlengt gæsluvarðahaldsúrskurð yfir manninum sem handtekinn var á aðfaranótt sunnudags í tengslum við manndráp í Rauðagerði. Annar tveggja manna sem handteknir voru í gær hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald. Ekki þótti ástæða til að halda hinum áfram.
Margeir Sveinsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að Landsréttur hafi staðfest niðurstöðu héraðsdóms um að krefjast gæsluvarðhalds yfir þeim mönnum sem kærðu úrskurð héraðsdóms. Alls eru átta sem eru í gæsluvarðhaldi vegna málsins.
Að sögn Margeirs telur lögreglan sig vera með þá í haldi sem komið hafa að málinu með einverjum hætti.
Liggur fyrir játning í málinu?
„Ég ætla ekki að tjá mig um það,“ segir Margeir.
Finnst þér þið vera nær því að leysa málið í dag en í gær?
„Já, það er ágætisgangur í rannsókninni,“ segir Margeir.
Hann segir að umfangsmiklar húsleitir sem framkvæmdar hafa verið undanfarna daga muni halda áfram í dag.
Leitið þið fleiri manna í tengslum við málið?
„Ég vil ekki tjá mig um það,“ segir Margeir.
Hann segir að lögregla geri sér grein fyrir því hvernig vopn var notað til verknaðarins.
Hann segir að notast hafi verið við tæknideild lögreglunnar við rannsókn málsins víðar en á staðnum þar sem morðið var framið.
Hefur lögreglan borið kúlur sem fundust á morðstað saman við einhverja tiltekna byssu?
„Það er ekkert sem ég vil tjá mig um,“ segir Margeir.
Hann segir enn ekki fullrannsakað hvort talið er sé að skipulögð glæpastarfsemi blandist inn í málið.