„Við erum með bland í poka um helgina,“ segir Helga Ívarsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, við mbl.is og á þá við helgarveðrið en ekki laugardagsnammið.
Miðað við árstíma er veður fremur milt en hiti verður núll til fimm stig sunnanlands en vægt frost inn til landsins norðan heiða.
Vetrarleyfi eru í grunnskólum Kópavogs í gær og dag, í Reykjavík á mánudag og þriðjudag, 22. og 23., og í þeirri sömu viku eru vetrarleyfi í Hafnarfirði og Garðabæ.
Ljóst er að fjölmargir ætla af höfuðborgarsvæðinu norður yfir heiðar en barist hefur verið um skíðamiða í Hlíðarfjall um helgina.
„Það verður mjög flott á Akureyri á morgun,“ segir Helga og bætir við að veður verði þokkalegt víða um helgina; ekki sé það sem mætti kallast „vont veður“ í kortunum.
Á morgun gengur úrkomubelti yfir landið og því verður einhver úrkoma um tíma í flestum landshlutum. Þegar það gengur yfir lægir og léttir til og Helga segir að annað kvöld verði léttskýjað um mestallt landið.
Á sunnudag bætir í vind á Austurlandi þar sem verður stíf norðanátt með slyddu eða snjókomu fyrri hluta dags. Þegar líður á daginn færist úrkomubeltið á norðanvert landið þar sem snjóar á sunnudagskvöld og aðfaranótt mánudags.
„Á sunnudag verður mjög gott veður hér í höfuðborginni, hæg norðlæg átt og bjart,“ segir Helga.