Háskóli Íslands brautskráir 466 kandídata úr grunn- og framhaldsnámi á laugardaginn.
Að þessu sinni verður ekki haldin hefðbundin brautskráningarhátíð vegna samkomutakmarkana en til þess að stuðla að því að kandídatar geti fagnað langþráðum áfanga mun skólinn skapa hátíðarstemningu í Háskólabíói umræddan dag og bjóða kandídötum að sækja prófskírteini sín þangað, að því er segir í tilkynningu.
Afhendingu prófskírteina á laugardag verður skipt upp eftir fræðasviðum. Verkfræði- og náttúruvísindasvið ríður á vaðið kl. 10-11, hugvísindasvið kemur þar á eftir kl. 11-12, heilbrigðisvísindasvið og menntavísindasvið kl. 12-13 og loks verða prófskírteini frá félagsvísindasviði afhent kl. 13-14.
Af þeim 466 sem brautskrást eru 203 úr grunnnámi og 263 úr framhaldsnámi. Frá félagsvísindasviði skólans brautskráist 151 kandídat, 62 frá heilbrigðisvísindasviði, 87 frá hugvísindasviði, 105 frá menntavísindasviði og 61 frá verkfræði- og náttúruvísindasviði. Í brautskráningarhópnum eru 326 konur og 140 karlar.
Meðal kandídatanna eru enn fremur fyrstu nemendurnir sem ljúka MT-prófi frá menntavísindasviði skólans. Um er að ræða 120 eininga meistarapróf til kennsluréttinda þar sem nemendur taka námskeið til 30 eininga í stað þess að vinna jafnstórt lokaverkefni.
Við afhendingu prófskírteina verður sóttvarnaviðmiðum fylgt í hvívetna og eru kandídatar hvattir til að bera andlitsgrímur þegar þeir koma í Háskólabíó.
Grímur og sótthreinsispritt verða einnig á staðnum fyrir þá sem það vilja. Kandídatar eru jafnframt hvattir til að virða tveggja metra regluna og forðast hópamyndun fyrir utan húsið. Starfsfólk verður á staðnum og veitir frekari leiðbeiningar.