Öryggisbrestur í rafmagni á Landakoti

Landakotsspítali.
Landakotsspítali. mbl.is/Kristinn Magnússon

Öryggisbrestur varð í rafmagni á Landakoti snemma í morgun. Rafmagnið er nú komið aftur á. Þá rofnaði samband við tölvubúnað á Landakoti og Kleppsspítala í gærmorgun. 

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður forstjóra Landspítalans, segir ekkert hafa komið upp á tengt meðferð sjúklinga vegna rafmagnsleysisins. 

„Í nótt varð bilun í aðaltöflunni á Landakoti um 6:20 og rafmagnið var komið á klukkan 8 aftur. Mér er ekki kunnugt um að það hafi orðið einhver vandræði út af þessu. Það er yfirleitt ekki þannig meðferð þarna, en auðvitað er ýmislegt sem getur komið upp eins og maður þekkir sjálfur í rafmagnsleysi, þótt það sé ekki meðferðartengt,“ segir Anna Sigrún. 

Í gær varð síðan rof á ljósleiðara vegna viðhalds hjá gagnaveitunni í rúma þrjá tíma að sögn Önnu og rofnaði samband við tölvubúnað á Landakoti og Kleppsspítala. 

Engar vararafstöðvar eru á Landakoti. 

„Við erum bara með vararafstöðvar í Fossvogi og við Hringbraut vegna þeirra tækja og tóla sem við notum í meðferð þar. Þar er viðkvæm starfsemi sem er mjög háð rafmagni,“ segir Anna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert